Ashton Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, lenti í Sádi Arabíu í morgun en hann er á ferðalagi í Mið-Austurlöndum til að ræða við leiðtoga á svæðinu um samkomulag um kjarnorkuáætlun Íran.
Carter mun funda með Salman konungi í borginni Jeddah, þar sem konungsfjölskyldan dvelur yfir sumarmánuðina, en hann mun einnig ræða við Mohammed bin Salman prins, sem er varnarmálaráðherra ríkisins.
Í gær heimsótti Carter Ísrael og átti fund með Benjamin Netanyahu forsætisráðherra, sem hefur sagt að samkomulagið við Íran muni hrinda af stað vopnakapphlaupi á svæðinu. Þá telur Netanyahu að samkomulagið muni ýta undir yfirgangssemi af hálfu Íran.
Stjórnvöld í Sádi Arabíu hafa áhyggjur af því að samkomulagið komi ekki í veg fyrir að ráðamönnum í Tehran takist að smíða kjarnavopn. Þau telja að það muni þvert á móti verða til þess að stjórnvöld í Íran færi sig upp á skaftið, en þau hafa verið sökuð um afskipti í Sýrlandi, Írak, Jemen og Líbanon.
Carter hefur leitast við að sefa áhyggjur bandamanna Bandaríkjanna með því að leggja til aukið samstarf ríkjanna á sviðið hermála.