Krufningin bendir til sjálfsvígs

Sandra Bland er hún varð sett í gæsluvarðhald.
Sandra Bland er hún varð sett í gæsluvarðhald. AFP

Niðurstöður krufningar á Söndru Bland sýna engin merki um refsivert athæfi að sögn saksóknara í Waller sýslu í Texas. Eru niðurstöðurnar sagðar styðja við þær fullyrðingar að um sjálfsvíg hafi verið að ræða en Bland fannst hengd í fangaklefanum sínum þremur dögum eftir að hún var handtekin.

Bland var stöðvuð af lögreglu fyrir að hafa ekki gefið stefnuljós við akreina skipti en var handtekin fyrir að sparka í lögreglumann eftir að hún steig út úr bílnum.

Fjölskylda Bland hafnaði því að Bland hefði tekið eigið líf og sögðu hana hafa verið hamingjusama í  nýju starfi og hafa enga ástæðu haft til að taka eigið líf.

Saksóknarar birtu myndir úr krufningunni og nákvæmar lýsingar dánardómstjóra á blaðamannafundi í dag. Fjölskylda hennar hafði neitað sögum um að hún hefði áður reynt að taka eigið líf en við krufninguna fundust nýleg ummerki um sjálfsskaða á úlnliðum hennar.

„Við munum aldrei geta sannfært alla,“ sagði Warren Diepraam, aðstoðarsaksóknari í Waller sýslu. Hann sagði sönnunargögnin þó öll benda til sjálfsmorðs. „Ég hef ekki séð nein sönnunargögn sem gefa í skyn að um morð hafi verið að ræða.“

Myndband af handtöku Bland hafi kynt undir grun um að hún hafi sætt illri meðferð. Það sýnir lögreglumanninn reiðast eftir að hún neitar að slökkva á sígarettunni sinni og í kjölfarið draga fram rafbyssu og æpa „Ég grilla þig“ þegar hún neitaði að fara út úr bílnum.

mbl.is