Hamborgarar eftir erfiða keppni

Myndarlegur hópur íþróttamanna á Heimsleikunum
Myndarlegur hópur íþróttamanna á Heimsleikunum Ljósmynd/Af Facebook

„Við vöknuðum snemma enda var mæting kl 6:30 fyrir öll liðin á keppnissvæðið, Stubhub Center (þar sem m.a. LA Galaxy er með heimavöll). Þaðan vorum við ferjuð í rútum yfir til Hermosa Beach þar sem fyrsta grein var haldin,“ segir íþróttamaðurinn Arnar Sigurðsson í færslu á samskiptavefnum Facebook.

Arnar er nú staddur ásamt myndarlegum hópi Íslendinga á Heimsleikunum í Crossfit í Los Angeles í Bandaríkjunum. Eftir erfiða keppni ákvað hópurinn að verðlauna sig með hamborgara á veitingastaðnum Five Guys.

Í færslunni segir Arnar hópinn hafa þurft að bíða eftir rútuferðinni í hátt í tvær klukkustundir. 

„Þar sem það mættu bara tvær rútur til að pikka upp liðin sem voru í fyrsta riðli á ströndinni. Okkar lið var ekki í þeim hópi og biðum við spök með hinum liðunum sem voru skilin eftir, þar meðtalin öll stórstjörnuliðin sem virtust ekkert alltof sátt með þetta skipulagsklúður,“ segir hann. 

„Fyrirfram vissum við að sundið yrði basl fyrir okkur. Menn misöruggir í sjónum o.s.frv. Sundið gekk þó framar vonum og við náðum góðri ferð. Í seinni ferðinni fengu sterku mennirnir í liðinu krampa til skiptis. Þröstur þurfti einu sinni að hoppa upp á björgunarsleðann þar sem kálfinn hans krampaði svo rosalega. Greyið karlinn emjaði vel en hoppaði svo aftur út í og hélt áfram að synda. Okkur var svo sagt að sleðinn hefði flogið áfram þegar Þröstur hoppaði upp,“ segir hann.

„Réttstöðulyftan var óvissan ein fyrirfram þar sem við fengum ekkert að prófa orminn áður en við byrjuðum. Við ætluðum okkur að taka 15 endurtekningar í einu eftir að hafa horft á fyrsta riðilinn. Við náðum því miður aldrei takti fyrr en í síðustu umferðinni og þá var það orðið of seint [...] Niðurstaða 39 sæti á tímanum 49.18.“

Þá kemur einnig fram að mórallinn sé góður í liðinu og að liðsmenn hafi sýnt „frábæran karakter.“ 

„Eftir keppni fórum við að sjálfsögðu á Five Guys og fengum okkur hamborgara. Þar vorum við ekki í slæmum félagsskap en Rich Froning (fjórfaldur heimsmeistari í Crossfit og keppir nú í fyrsta sinn í liði) og liðið hans var mætt að úða í sig hamborgurum.“

Heimsleikar 2015. Dagur 1 - Greinar 1 & 2.Við vöknuðum snemma enda var mæting kl 6:30 fyrir öll liðin á keppnissvæðið,...

Posted by Arnar Sigurdsson on Thursday, July 23, 2015
mbl.is