Á ýmsum stærri tónlistarhátíðum tíðkast að vera með svokallað Off Venue þar sem listamenn troða upp á utan hefðbundinnar dagskrár. Í þann hóp getur Þjóðhátíð í Eyjum ekki látið sig vanta og verður nóg um dýrðir utan dalsins á Heimaey um verslunarmannahelgina.
Off venue í Eyjum skartar um margt öðruvísi skemmtikröftum en þeim sem Íslendingar eiga að venjast á hátíðum á borð við Icelandairwaves en er að mestu í takt við aðra dagskrá Þjóðhátíðar.
Þannig verður FM95Blö með útsendingu í beinni frá 900 Grillhúsi á föstudag frá 16 til 18. Þar munu Land & synir spila og verður leitast við að svara spurningunni um hversu oft Hreimur hefur sungið lag allra þjóðhátíðarlaga „Lífið er yndislegt“.
Stemningin heldur áfram á 900 Grillhúsi á laugardegi þar sem ólíkir heimar mætast í þeim DJ Margeiri, Unnsteini Manúel og Ásdísi Maríu.
Á laugardegi og sunnudegi mun Ingó Veðurguð halda uppi fjörinu í Vinaminni ásamt góðum gestum og hitar upp fyrir Brekkusönginn.