Indversk yfirvöld tóku Yakub Memon, manninn sem var dæmdur fyrir að hafa fjármagnað sprengjutilræði í Mumbai árið 1993, af lífi í dag. Memon var hengdur í fangelsi í Nagpur í Maharashtra-héraði.
Alls létust 257 í sprengjutilræðinu sem var hefnd fyrir dráp á múslímum í uppþotum í borginni nokkrum mánuðum fyrr, segir í frétt BBC.
Aftökur eru fátíðar á Indlandi en aðeins hafa þrír verið teknir af lífi þar síðan árið 2004.
Mikill viðbúnaður var við Nagpur fangelsið í morgun og í hluta borgarinnar Mumbai vegna aftökunnar.
Tilræðið í Mumbai í mars 1993 beindist að nokkrum skotmörkum en alls sprungu sprengjur á tólf stöðum í borginni, meðal annars í kauphöllinni, skrifstofum Air India og á lúxushóteli.
Bróðir Yakub Memons, Tiger, er talinn hafa verið höfuðpaurinn á bak við árásirnar ásamt höfuðpaur glæpagengis, Dawood Ibrahim. Þeir fara báðir huldu höfði.