Fimm tónleikar á þremur dögum

Amabadama verður á þeytingi um verslunarmannahelgina.
Amabadama verður á þeytingi um verslunarmannahelgina. mbl.is/Styrmir Kári

Hljómsveitin Amabadama verður á ferð og flugi um helgina en sveitin heldur fimm tónleika og skemmtir gestum fjögurra hátíða á aðeins þremur dögum. Gnúsi Yones söngvari sveitarinnar segir í samtali við mbl.is að maraþonhelgi sé í uppsiglingu.

„Við erum á Innipúkanum í kvöld og í Eyjum á morgun. Á sunnudag spilum við á hátíð Fjölskyldu- og húsdýragarðsins hér í bænum áður en við förum á Eina með öllu á Akureyri. Við endum svo helgina með balli í Sjallanum seinna um kvöldið, við og Úlfur Úlfur.“

Tónleikarnir fimm verða ekki með sama sniði og í raun segir Gnúsi að þeir verði gjörólíkir hverjir öðrum. Sem dæmi um það verður Jakob Frímann Magnússon þeim til samneytis á Innipúkanum.

„Þetta verður í fyrsta sinn sem við spilum með honum og gestir mega búast við miklu fjöri. Það er ábyggilega gaman fyrir aðdáendur Jakobs Frímanns að heyra lögin hans í okkar búningi, en við „reggíum“ þau aðeins upp,“ segir Gnúsi og bætir við að lögin hans verði spiluð í bland við þeirra eigin. Sveitin ætlar auk þess að frumflytja nýtt lag um helgina sem Gnúsi segir vera skemmtilega smíð.

Margir hafa átt í vandræðum með hvort beygja skuli nafn hljómsveitarinnar. Gnúsi tekur undir það með blaðamanni. „Það getur verið svolítið vafasamt. Ég hef persónulega mjög gaman af því þegar fólk gerir það. Væri það þá ekki Amabadama um Amöbudömu?“ veltir hann fyrir sér. „Annars er ég enginn sérfræðingur í þessum málum.“

Gnúsi Yones hefur gaman af því þegar fólk beygir nafn …
Gnúsi Yones hefur gaman af því þegar fólk beygir nafn sveitarinnar.
mbl.is