Utanríkismálanefnd mun funda á miðvikudag eða fimmtudag í næstu viku til að ræða stöðu mála í Tyrklandi og mögulegar viðskiptaþvinganir Rússa gegn Íslendingum. Þetta staðfestir Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, óskaði eftir fundi í nefndinni vegna aðgerða tyrkneskra stjórnvalda gegn Kúrdum, og sagði í samtali við mbl.is að þar sem Ísland ætti aðild að NATO þyrfti að eiga sér stað umræða um stuðning bandalagsins við aðgerðir Tyrkja.
„Ráðuneytið þarf lögum samkvæmt að hafa samráð við utanríkismálanefnd um meiriháttar ákvarðanir en auðvitað er hægt að ræða það hvaða ákvörðun felst í því þegar framkvæmdastjóri NATO segir bandalagið standa með Tyrklandi. Mér finnst eðlilegt að vita hvaða umræða átti sér stað í aðdraganda yfirlýsingarinnar og hvaða afstöðu fulltrúar Íslands tóku í því máli,“ sagði Katrín meðal annars.
Birgir tekur undir þetta og segir tilefni til að nefndin afli sér upplýsinga um þær umræður sem áttu sér stað um málið á vettvangi NATO.
Þá segir hann að á dagskrá fundarins í næstu viku verði einnig mögulegar aðgerðir Rússa gegn Íslendingum, sem haft gætu áhrif á útflutning íslenskra sjávarafurða.