Íranir hyggjast kaupa áttatíu til níutíu flugvélar á ári frá framleiðendunum Airbus og Boeing til þess að endurnýja flugvélaflota landsins eftir að viðskiptaþvingunum gagnvart landinu verður aflétt.
Mohammad Khodakarami, framkvæmdastjóri hjá flugmálastjórn landsins, sagði við íranska ríkisfjölmiðilinn IRNA að Íranir þyrftu að kaupa að minnsta kosti um áttatíu flugvélar á ári til þess að endurnýja flota sinn, sem er orðinn heldur gamall. Þeir myndu kaupa jafnmargar vélar frá Boeing og Airbus.
Eins og kunnugt er náðu stórveldin sex samkomulagi við stjórnvöld í Íran í seinasta mánuði um kjarnorkuáætlun Írana. Samkomulagið felur í sér að Íranar hægi á kjarnorkuáætlun sinni gegn því að stórveldin afnemi viðskiptaþvinganir sínar gagnvart landinu.
Talið er að Íranir muni geta átt viðskipti á alþjóðamörkuðum fyrir lok ársins, gangi allt eftir. Meðalaldur flugvélaflotans er nú 23 ár, sem er tvöfalt hærri aldur en meðaltalið á heimsvísu, að því er segir í frétt Reuters.