Svo virðist sem nóttin hafi verið með rólegra móti á Akureyri, Ísafirði og í Vestmannaeyjum, að sögn lögreglunnar.
Á Ísafirði komu upp þrjú fíkniefnamál í nótt, en efnin voru í öllum tilvikum ætluð til einkaneyslu. Gerði lögreglan fíkniefnin upptæk. Annars fór allt vel fram.
Nóttin gekk „dásamlega vel“ á Akureyri að sögn varðstjóra lögreglunnar þar í bæ. Margt fólk var á ferli í gærkvöldi og nótt en fátt bar til tíðinda. Tveir menn fengu að gista í fangageymslu vegna ölvunar.
Þá gekk allt stóráfallalaust fyrir sig í Vestmannaeyjum í nótt. Nokkuð var um ölvun og fengu tveir að gista í fangageymslu vegna ölvunarástands. Lögreglan upplýsir ekki um hvort kærur vegna kynferðisbrota hafi borist, samkvæmt tilkynningu lögreglustjórans frá því fyrr í vikunni.