„Þetta hefur gengið alveg stórkostlega, í einu orði sagt,“ segir Ársæll Ásbergsson, framkvæmdastjóri Vatnaskógar, í samtali við mbl.is, en skógarmenn KFUM ásamt KFUM og KFUK á Íslandi standa fyrir vímulausri fjölskylduhátíð um verslunarmannahelgina, líkt og síðustu ár, undir heitinu Sæludagar í Vatnaskógi.
Hátíðin hófst á fimmtudaginn og stendur fram til morgundagsins. Fjöldi fólks, yfir þúsund manns, sækja hátíðina í ár en dagskráin er að sögn aðstandenda í anda sumarbúðastarfs samtakanna og á að höfða til flestra aldurshópa.
Ársæll segir veðrið hafa verið frábært. „Það var fínt veður í gær, þó smá gjóla, en nú er blankalogn og sól, hálfgert sólstrandarveður. Það verður ekki betra. Það er bara þannig,“ sagði hann þegar mbl.is hafði samband eftir hádegi í dag.
Dagskráin er að venju fjölbreytt, en boðið er upp á tónleika, varðeld, fræðslustundir, kvöldvökur, kassabílarallý, knattspyrnuhátíð, gospelsmiðju, gönguferðir, báta og vatnafjör, svo eitthvað sé nefnt.
„Veðrið er frábært og það er fullt af fólki, þannig að við erum bara mjög kát,“ nefnir Ársæll.