Það var erill hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum í gærkvöldi og nótt og alls gista fimm fangageymslur vegna ölvunar og annarrar vímu. Um 70 fíkniefnamál komu upp á Þjóðhátíð í ár en í nótt voru fíkniefnamálin fjórtán talsins, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Brakandi blíða er í Eyjum og stutt í að fólk verði að setja á sig sólarvörn ef það ætlar að losna við sólbruna á frídegi verslunarmanna.
Talið er að um fimmtán þúsund manns hafi verið á Þjóðhátíð í gærkvöldi og fór hátíðin vel fram að sögn lögreglu sem er ánægð með framkomu gesta á hátíðinni í ár.
Engin alvarleg líkamsárásarmál komu á borð lögreglunnar í Eyjum í gærkvöldi og nótt og aðspurður um hvort einhver kynferðisbrot hafi komið til kasta lögreglunnar var vísað til tilkynningar lögreglustjóra.
Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, sendi fyrir helgi bréf á viðbragðsaðila þar sem hún leggur til að þeir gefi fjölmiðlum engar upplýsingar um kynferðisbrot sem kunna að koma upp á Þjóðhátíð. Páley segir markmiðið að hlífa aðilum máls á meðan þeir ganga í gegnum erfitt ferli.
Bréfið var sent á læknaforstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, yfirmann sjúkraflutninga, yfirmann gæslunnar á Þjóðhátíð og neyðarmóttöku Landspítala. Þá var afrit sent á forsvarsmann áfallateymis hátíðarinnar og félagsþjónustu Vestmannaeyja, sem voru samráðsaðilar um ákvörðunina.