Helgin hefur að mestu verið mjög róleg hjá lögregluembættum víðsvegar um landið þar sem ekki eru stærstu hátíðahöldin og lýsti lögreglufulltrúi á Húsavík því þannig að um væri að ræða rólegustu helgi ársins. Umferðin er þó að þyngjast á átt að höfuðborgarsvæðinu, en hingað til hefur þó umferðin gengið að mestu stór áfallalaust fyrir sig.
Þegar blaðamaður heyrði í lögreglunni á Egilsstöðum var svarið stutt og einfalt varðandi hvernig helgin hefði verið: „rólegt.“ Sömu sögu var að segja frá Dalvík og á Vopnafirði sagði lögreglumaður að ekkert mál hefði komið upp alla helgina. „Rólegt og þægilegt,“ var lýsingin þaðan.
Á Húsavík var lögreglukona til svara og var ekkert að skafa af því. „Bærinn tæmdist,“ sagði hún og bætti við að þetta væri „rólegasta helgi ársins.“
Í Borgarnesi og Blönduósi var svipaður tónn í lögreglumönnum, en því þó bætt við að umferðin væri að þyngjast. Lögreglumenn frá báðum embættum, sem og flestum öðrum sem mbl.is ræddi við í dag, verða við eftirlit á vegum úti í allan dag. Hingað til hefur umferðin þó að mestu gengið vel.