Nokkrum klukkustundum áður en Shafqat Hussain var tekinn af lífi í nótt hitti bróðir hans, Gul Zaman, hann í síðasta skipti. Allt fram á síðustu stundu hélt Hussain fram sakleysi sínu: „Ég snerti aldrei drenginn - ég vil að heimurinn viti þetta á dauðastund minni.“
Þrátt fyrir hávær mótmæli frá mannréttindasamtökum var Hussain hengdur í nótt af yfirvöldum í Pakistan. Hussain var dæmdur árið 2004 fyrir morð á sjö ára gömlum dreng í borginni Karachi eftir að hafa játað á sig morðið. Hussain var fjórtán eða fimmtán ára á þessum tíma og dró síðar játninguna til baka og segir að hún hafi verið þvinguð fram með pyntingum.
Dauðadómurinn yfir Hussain vakti mikla athygli víða, meðal annars gagnrýndu Sameinuðu þjóðirnar refsinguna vegna þess hve ungur hann var er dómurinn féll og að játningin hafi verið þvinguð fram með pyntingum.
Gilda önnur lög um fátæka?
Í bænum Muzaffarabad í Kasmír héraði býr fjölskylda Hussains. „Hvers vegna hengdu þeir bróður minn sem var saklaus? Var það vegna þess að við erum fátæk?“ sagði systir hans Sumaira Bibi, í viðtali við AFP fréttastofuna.
Móðir hans, Makhni Begum, grét þegar fréttamenn náðu tali af henni fljótlega eftir aftökuna en hún hefur upplifað það í fjögur skipti frá því í janúar að hætt hafi verið við aftökuna á síðustu stundu. En ekki núna. „Sonur minn var saklaus. Allah mun sanna sakleysi hans fyrir sínum dómstóli.“ „Við getum ekkert gert en þeir (sem önnuðust aftökuna) munu mæta Allah á dómsdegi.“
Mannréttindafrömuðir hjá SÞ segja að réttarhöldin yfir Hussain standist ekki alþjóðlegar reglur og hvöttu SÞ stjórnvöld í Pakistan til þess að taka fangann ekki af lífi án þess að rannsaka ásakanir um pyntingar sem og aldur hins dæmda.
Meðal þeirra sem reyndu að biðla til forseta Pakistans um að þyrma lífi Hussains var héraðsstjórnin í Kasmír. Án árangurs. „Shafqat Hussain var hengdur 10 eða 12 mínútum fyrir bænir í dagrenningu,“ segir fangavörður í samtali við AFP.
Segja að rannsókn hafi leitt í ljós að hann var orðinn 18 en birta hana ekki
Rannsókn á aldri Hussains var framkvæmd af opinberum aðilum og niðurstaða hennar er að hann hafi verið orðin 18 ára þegar morðið var framið og því hafi mátt dæma hann til dauða samkvæmt lögum landsins. Rannsóknin hefur hins vegar ekki verið gerð opinber.
Hussain var yngstur sjö systkina í litlu þorpi í Kasmír. Hann starfaði sem vaktmaður í Karachi árið 2004 þegar sjö ára gamall drengur, Umair, hvarf á svipuðum slóðum. Nokkrum dögum síðar var hringt úr gsm síma Hussains og lausnargjalds krafist fyrir drenginn upp á hálfa milljón rúpía.
Hussain var handtekinn og játaði barnsrán og að hafa drepið drenginn. Síðar dró hann játninguna til baka og sagðist hafa játað þegar hann var pyntaður til sagna.
Erfitt hefur reynst að henda reiður á hversu gamall hann er því fæðingarvottorð eru ekki gefin út nema í einstaka tilvikum meðal fátækra í Paksitan.
Fyrir nokkrum mánuðum var fæðingarvottorði Hussains dreift til fjölmiðla en í ljós kom að það var lítið að marka það þar sem það var gefið út í desember í fyrra. Því neituðu yfirvöld að taka mark á því.
Mælt fyrir fatnaði fyrir aftökuna 1-2 dögum áður
Mannréttindasamtökin Amnesty International telja að um átta þúsund manns séu á dauðadeildum í Pakistan.
CNN birti í gær sláandi frásögn sem höfð er eftir Hussain í fangelsinu:
„Ég er einn í klefanum núna. Báðir klefafélagar mínar hafa verið hengdir. Ég deildi klefanum með Muhammad Faisal og Muhammad Afzal. Ég hafði deilt klefanum með þeim í sex eða sjö ár.
Ég get ekki einu sinni lýst því hvernig mér leið þegar þeir voru teknir af lífi. Ég náði varla að fylgjast með dauða þeirra þar sem það átti að taka mig af lífi daginn eftir. Mér hefur verið tjáð að það eigi að taka mig af lífi sjö sinnum. Í fyrsta skiptið árið 2013.
Þegar ég fékk tilkynninguna í fyrsta skiptið þá var ég afar áhyggjufullur og ráðþrota. Á einum tímapunkti er mér sagt að ég eigi að deyja. Það næsta sem ég veit að ég fái að lifa. Og sé neista vonar. En þá er mér aftur sagt að ég eigi að deyja. Þú verður fórnarlamb andlegs álags,“segir Hussain í samtali við CNN.
Í frétt CNN fá orð fangans að lifa.
Hussain segir að þeir sem hafa verið dæmdir til dauða fái fréttirnar með viku fyrirvara. Frá þeirri stundu er þeim haldið frá öðrum föngum og þeir velja í sjö daga einir í klefa í byggingu sem hýsir þá dauðadæmdu.
Á hverjum degi er fanginn látinn gangast undir andlegt próf og hann vigtaður, blóðþrýstingur mældur sem og hitastig líkamans. Síðan er hann mældur hátt og lágt upp á að velja fatnað til þess að hengja fangann í. Síðasta daginn fær fanginn að kveðja fjölskyldu sína þar sem gengið er frá málum hans, til að mynda hvar eigi að jarðsetja hann.
„Flestir vilja láta grafa sig við hliðina á þeim sem þeir elska. Við hlið einhvers sem hefur farið á undan þeim, til að mynda móður eða föður eða afa eða ömmu, jafnvel systkini. Ég segi fjölskyldu minni að ég vilji hvíla við hlið frænda mín á heimaslóðum,“ Hussain. Það ríkir þögn í fangelsinu á aftökudögum.
Today Shafqat Hussain is hanged, and with him any hope for a fair judiciary and legal system #ShafqatHussain #saveshafqat
— Mavra Bari (@MavraBari) August 4, 2015