Myndir af hundi sem var grafinn lifandi í Frakklandi hafa gert allt vitlaust á samfélagsmiðlum og hefur eigandi hundsins verið handtekinn.
Það var hundaeigandi sem var á göngu á óbyggðu svæði í Carrieres-sur-Seine með sinn hund sem fann hundinn, sem af tegundinni Dogue de Bordeaux, og bjargaði honum.
Maðurinn setti inn myndir af hundinum á Facebook og sagði að þarna hafi orðatiltækið réttur maður á réttum stað sannað sig og bjargað lífi.
Aðeins haus hundsins stóð upp úr og var vart sýnilegur þar sem búið var að moka miklu magni af mold yfir hann.
Samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar hjá lögreglunni hafði grjóti verið hlaðið upp meðfram hundinum og poka með möl hafði verið komið fyrir svo hann slyppi ekki úr prísundinni. Tæpara mátti ekki standa með björgun því hundurinn var orðinn afar máttfarinn og byrjaður að þorna upp.
Það tók lögreglu skamman tíma að hafa uppi á eigandanum sem er 21 árs gamall. Hann neitar að hafa grafið hundinn lifandi og segir að hann hafi stungið af. Lögreglan tekur hins vegar ekki mark á skýringum hans. Enda hundurinn meira en tíu ára gamall og þjáist af liðagigt.
Eigandinn verður leiddur fyrir dómara ákærður fyrir dýraníð. Hann á yfir höfði sér tveggja ára fangelsi og að þurfa að greiða sekt upp á 30 þúsund evrur.