„Kynþáttur ætti aldrei að skipta máli“

Zachary Hammond
Zachary Hammond Skjáskot af Washington Post

Zachary Hammond var á sínu fyrsta stefnumóti þegar hann var skotinn til bana af lögreglumanni í Suður Karólínu í Bandaríkjunum í síðasta mánuði. Síðustu misseri hafa mál þar sem óvopnaðir ungir karlmenn eru skotnir til bana af lögreglumönnum verið áberandi í umræðunni, oft vegna harðra mótmæla. Lítið hefur farið fyrir dauða Hammond og telur lögmaður fjölskyldu hans helstu ástæðuna fyrir því vera að hann var hvítur.

 Hammond var nítján ára gamall þegar hann lést 26. júlí síðastliðinn. Hann var á stefnumóti með Tori Morton sem var sama kvöld handtekin og ákærð fyrir að hafa haft tíu grömm af kannabisefnum í fórum sínum.  Að sögn lögreglu var það þess vegna sem lögreglumenn höfðu afskipti af parinu þetta örlagaríka kvöld. Samkvæmt frétt The Washington Post er hvergi minnst á skotin tvö sem urðu til þess að Hammond lést í skýrslu lögreglu um handtöku Morton.

Rúmri viku eftir að Hammond lést sagði lögmaður fjölskyldu hans, Eric Bland, að sú staðreynd að Hammond var hvítur, hafi augljóslega áhrif á viðbrögð fjölmiðla og almennings við atvikinu. Bland nefnir borgir eins og Ferguson, Cleveland og Cincinnati þar sem dauðsföllum af hendi lögreglu hefur verið harðlega mótmælt og bendir á að lítið sem ekkert hefur heyrst í fjölmiðlum af dauða Hammond.

„Það er sorglegt, en ég held, því miður, að fjölmiðlar og yfirvöld hafa brugðist við dauða óvopnaðs hvíts unglings öðruvísi en hefði hann verið svartur,“ sagði Bland í samtali við Washington Post. „Kynþáttur ætti aldrei að skipta máli. Málið er, af hverju var óvopnaður unglingur skotinn í aðstæðum þar sem ekki er hægt að réttlæta dauðsfall?“

Á þessu ári hafa 25% þeirra sem hafa verið skotnir af lögreglu í Bandaríkjunum verið þeldökkir en samkvæmt frétt The Washington Post eru 13% Bandaríkjamanna þeldökkir.

Að sögn lögreglu var lögreglumaðurinn sem skaut Hammond „fórnarlamb tilraunar til manndráps“ en því er haldið fram að unglingurinn hafi ætlað að keyra á lögreglumanninn. Samkvæmt lögreglustjóranum John Covington keyrði Hammond bíl sínum í átt að lögreglumanninum. Í kjölfarið skaut hann Hammond tvisvar, í öxlina og búkinn. Dauði Hammond hefur verið flokkaður sem manndráp og í krufningarskýrslu kemur fram að báðar kúlurnar hafi hæft Hammond aftan frá. Þar kemur jafnframt fram að seinni kúlan fór inn í bak unglingsins vinstra megin og fór út í gegnum bringu hans hinu megin. Í kjölfarið sködduðust lungu hans og hjarta alvarlega og hann lést. 

Lögreglan í Seneca þar sem atvikið átti sér stað hafa neitað að birta nafn lögreglumannsins sem skaut Hammond. Hann er hinsvegar kominn í tímabundið leyfi.

Umfjöllun Washington Post í heild sinni.

mbl.is