„Skömmin er þeirra sem nauðga“

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. mbl.is/Árni Sæberg

„Það væri ömurlegt afturhvarf í baráttu fyrir kvenfrelsi að segja að hætta þurfi með tónlistahátíðir af því að annars nauðgi einhver þeim konum sem þangað koma til að skemmta sér jafnfætis körlum,“ skrifar Elliði Vignisson, bæjarstjóri Vestmannaeyjabæjar, á heimasíðu sína í dag. „Það væri nánast jafn ömurlegt og að taka upp hætti þeirra landa þar sem kúgun kvenna er landlæg og meina konum aðgengi að slíkum skemmtunum þar sem þær væru truflun fyrir eðli karlmanna.“

Í færslunni gagnrýnir Elliði umfjöllun fjölmiðla um kynferðisbrot á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Segir hann umræðuna hafa borið einkenni hins víðfræga Lúkasarmáls „þó með þeirri undantekningu að nú voru það fjölmiðlar sem knúðu æsingarmótorinn og í þetta skipti voru það alvarleg afbrot sem lágu til grundvallar umræðunni“.

Segir hann „æsistílinn“ hafa afvegaleitt umræðu um þetta alvarlega samfélagsmein sem kynferðisofbeldi er, og þeir sem hafa gengið lengst í afvegaleiðingunni séu fjölmiðlamenn sem hafa sumir hverjir gengið svo langt að þeir hafi fært skömmina af gerendum og yfir á aðra. „Yfir á brotaþola, þjóðhátíð, Eyjamenn eða aðra. Það baráttumál sem kristallast hefur í kröfunni um að skömmin verði færð yfir á gerendur var yfirgefið af mörgum fjölmiðlum seinustu vikuna. Skömmin er þeirra sem nauðga – ekki annarra.“

Elliði segir allt ofbeldi vera slæmt, en kynferðisofbeldi sé hreinn viðbjóður. „Ekkert kemst nær morði.“ Hann segist óttast það, skammast sín fyrir tíðni þess og fyrirlíta það. „Þess vegna finnst mér brýnt að við Íslendingar –sem lítið og náið samfélag- berjumst gegn þessu alvarlega meini sem því miður er algengt. Til þess að gera slíkt verðum við að bera gæfu til að afvegaleiða ekki umræðuna. Greina vandann rétt, gangast við honum og bregðast við.“

Skömmin ekki þeirra sem haldi tónlistarhátíðir

„Ef umfjöllun seinustu daga er í takt við raunveruleikann þá eru útihátíðir og þá sérstaklega þjóðhátíð helsta uppspretta nauðgana,“ skrifar hann en bendir í kjölfarið á gögn Stígamóta þar sem fram kemur að í 75,5% tilvika eigi nauðganir sér stað á heimili. Árið 2014 hafi hins vegar 4 einstaklingar leitað til Stígamóta vegna nauðgana á útihátíðum, eða 2%.

„Það er hroðalegt og mikilvægt að við leggjumst á eitt til að koma í veg fyrir þann veruleika. Við sem höfum aðkomu að slíkum hátíðum berum ábyrgð og eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir þessi brot sama hvaða prósenta liggur þar að baki. Á bak við þessi 4 tilvik hjá Stígamótum er fólk sem á um að sárt að binda og það er okkur ekki léttvægt. Því miður leituðu þó helmingi fleiri til Stígamóta vegna nauðgunar á vinnustað eða 8 (4%). 152 einstaklingur leitaði aðstoðar vegna nauðgunar í heimahúsi (75,5%). Gleymum ekki þessum skógi í umræðu um trén.“

„Við eigum ekki að hætta fyrr en við höfum byggt um samfélag þar sem konur eru öruggar. Þær eiga skilyrðislausan rétt á að vera öruggar inn á heimilum, í bílum, í húsasundum og á vinnustöðum. Þær eiga líka þennan sama rétt til að sækja skemmtanir hvort sem er innan dyra eða utan. Þjóðfélag sem ekki getur tryggt slíkt er ekki gott þjóðfélag.“

Elliði segir að til þess að byggja upp slíkt samfélag verði að vanda umræðuna. Skömmin sé ekki þeirra sem haldi tónlistahátíðir né þeirra sem þangað mæti, heldur þeirra sem nauðga.„Ábyrgðin er einnig okkar sem mótum hið íslenska samfélag. Gleymum því ekki að í Danmörku er haldin hliðstæða þjóðhátíðar í svo kallaðri Hróarskelduhátíð. Þar er áfengisnotkun síst minni og þar er meðalaldurinn síst hærri. Þar eru nauðganir hinsvegar fátíðari rétt eins og að nauðganir í Danmörku eru fátíðari en á Íslandi. Árið 2009 voru 6,4 nauðganir pr. hverja 100.000 íbúa kærðar í Danmörku en 24,7 á Íslandi. Ofbeldið á útihátíðum, í bílum, inn á heimilum og víðar er því afleiðing af einhverju samfélagslegu meini sem við verðum að takast á við. Umræðan seinustu daga hefur fært okkur fjær árangri í stað þess að færa okkur nær því. Þar er ábyrgð fjölmiðla mikil.“

mbl.is

Bloggað um fréttina