Ástandið í Ferguson rólegra

Frá mótmælunum í gærkvöldi sem fóru rólega fram.
Frá mótmælunum í gærkvöldi sem fóru rólega fram. AFP

Eftir miklar óeirðir og mótmæli á götum Ferguson í Missouri róaðist ástandið í gærkvöldi. Í frétt CBS kemur fram að um 100 manns hafi enn verið að mótmæla í gærkvöldi og fóru þau mótmæli að mestu leyti friðsamlega fram.

Kvöldin áður hafði fjöldi manns verið handtekinn í mótmælum í tilefni af því að ár var liðið frá því að Michael Brown féll fyrir hendi lögregluþjóns í borginni. Í fyrranótt voru 23 handteknir eftir að neyðarástandi hafði áður verið lýst yfir í borginni. 

„Larry Miller, einn skipuleggjenda mótmælanna sem kennd eru við hópinn Ferguson Freedom Fighers, viðurkenndi í samtali við CBS að mótmælin væru að deyja út en taldi þau hafa skilað litlu. „Við gerum okkur grein fyrir því að það sem þarf að gerast er ekki að gerast. Morðið á Mike Brown situr enn í okkur og við þurfum að breyta löggæslu- og dómsólakerfinu,“ sagði Miller.

Mótmælin hófust á sunnudaginn og héldust friðsamleg þar til lögreglan skaut 18 ára pilt, eftir að hann hafði hleypt af skotum í átt að lögreglubifreið, að sögn lögreglunnar. Pilturinn liggur þungt haldinn á sjúkrahúsi og er grunaður um heil 10 lögbrot. 

Daginn eftir, á mánudag, var mun meiri viðbúnaður hjá lögreglunni. Ekki var tilkynnt um neinar árásir eða skemmdarverk en þrátt fyrir það voru 23 handteknir. 

Jon Belmar, lögreglustjórinn í St. Louis, segir að það sé góðu skipulagi lögreglunnar að þakka að mótmælin róuðust á mánudaginn. „Það byggir á fyrri reynslu okkar. Við erum farin að taka á mótmælum með öðrum hætti,“ segir Belmar.

AFP
mbl.is