2.500 tonnum landað í St. Pétursborg

Þorsteinn Már Baldvinsson.
Þorsteinn Már Baldvinsson. Rax / Ragnar Axelsson

Gengið var frá því í nótt að skip á vegum Icefresh Seafood, sem er í eigu Samherja, fengi að landa í St. Pétursborg. Skipið kom til hafnar í gærmorgun með 2.500 tonn af íslenskum sjávarafurðum. Að sögn Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, er uppskipun að ljúka.

Þorsteinn staðfestir að skipið hafi verið það síðasta sem landar afla fyrirtækisins í Rússlandi þar til annað kemur í ljós. Hann segir hljóðið í kaupendum ekki gott.

„Þetta er fólk sem hefur unnið hörðum höndum mjög margt við að markaðssetja íslenskan fisk og mynda samskipti við Ísland. Lagt sig og sín fyrirtæki í það. Þannig að sjálfsögðu er þetta mjög mikið áfall fyrir þetta fólk,“ segir Þorsteinn.

Hann segist ekki telja að þrýstingur frá þessum aðilum á stjórnvöld í heimalandinu muni hafa áhrif á stöðu mála.

En til hvaða ráðstafana hyggst Samherji grípa í framhaldinu?

„Ég veit það ekki. Það eru ekkert mörg ráð sem eru í hendi. Þetta er búinn að vera gríðarlega mikilvægur markaður fyrir íslenskar sjávarafurðir og það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir hann,“ svarar Þorsteinn. „Að sjálfsögðu fara síðan þeir sem hafa verið í viðskiptum við okkur að leita annarra leiða, þannig að það er verið að eyðileggja góð viðskiptasambönd og góða markaði.“

mbl.is