Eftir 2,64% lækkun á bréfum HB Granda í fyrradag sótti verðlagning á bréfum í útgerðarfélaginu í fyrra horf í Kauphöllinni í gær. Þannig hækkuðu bréf þess um 3,1% í tæplega 400 milljóna króna viðskiptum. Lækkunin í fyrradag hafði hins vegar orðið í rúmlega 600 milljóna viðskiptum.
Ekkert félag hækkaði jafn mikið í Kauphöllinni í gær og HB Grandi.
Í tilkynningu frá HB Granda á fimmtudag sagði að ef innflutningsbann Rússlands næði til innfluttra sjávarafurða frá Íslandi myndi töluverður hluti þess afla félagsins, sem unninn er í frystar afurðir á Rússlandsmarkaði, verða unninn í mjöl og lýsi. Við það myndi vinna við aflann minnka og störfum við vinnsluna fækka, auk þess sem verðmæti aflans myndi lækka töluvert.