Viðskiptaþvinganir eru einsdæmi

Rússneska sendiráðið. Héðan er vandlega fylgst með umræðum á Íslandi …
Rússneska sendiráðið. Héðan er vandlega fylgst með umræðum á Íslandi um samskipti og viðskipti þjóðanna. mbl.is/Eggert

Íslend­ing­ar og Rúss­ar hafa ekki fyrr en nú beitt hvor aðra bein­um efna­hags­leg­um þving­un­um. Viðskipti land­anna hóf­ust eft­ir stríð og hafa stund­um haft veru­lega þýðingu fyr­ir fjár­hags- og at­vinnu­ástand hér á landi.

Aðeins eru tvö ár frá því að Ser­gey Lavr­ov, ut­an­rík­is­ráðherra Rúss­lands, lýsti ánægju yfir því að í langri sögu sam­skipta ríkj­anna hefðu „eng­in al­var­leg vanda­mál eða ágrein­ing­ur“ komið upp. Ekki er þetta þó alls kost­ar rétt. Skoðanamun­ur var lengi hér á landi um ýmsa þætti þess­ara viðskipta. Ýmis­legt gekk og á bak við tjöld­in. Í árs­byrj­un 1991 gáfu Rúss­ar í skyn að þeir myndu slíta viðskipt­un­um við Ísland ef rík­is­stjórn­in styddi sjálf­stæðis­bar­áttu Eystra­salts­ríkj­anna.

Fyrstu viðskipt­in 1946

Guðni Th. Jó­hann­es­son sagn­fræðing­ur seg­ir að viðskipti Íslands og Rúss­lands hafi haf­ist stuttu eft­ir lok seinni heims­styrj­ald­ar. Rúss­land var þá hluti Sov­ét­ríkj­anna sem liðuðust í sund­ur árið 1991. Ný­sköp­un­ar­stjórn­in und­ir for­sæti Ólafs Thors, for­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins, með Sósí­al­ista­flokk­inn inn­an­borðs, leitaði á þess­um tíma markaða fyr­ir fros­inn fisk og fleiri fiskaf­urðir frá Íslandi vegna auk­inn­ar fram­leiðslu. Sósí­al­ista­flokk­ur­inn var leynt og ljóst í nán­um tengsl­um við sov­ésku komm­ún­ista­stjórn­ina og það hef­ur án vafa haft áhrif á af­stöðu Rúss­lands til viðskipta við Íslands. Vorið 1946 tók­ust samn­ing­ar um að Rúss­ar keyptu héðan 15 þúsund tonn af fryst­um fiski og tals­vert af salt­síld og lýsi. Greitt var fyr­ir vör­urn­ar í Banda­ríkja­doll­ur­un­um. Frá Rússlandi keyptu Íslend­ing­ar timb­ur og kol. Þjóðvilj­inn, mál­gagn Sósí­al­ista­flokks­ins, kallaði samn­ing­inn við Rússa „merk­asta at­b­urð í viðskipta­sögu Íslands“.

Stjórn­arþátt­töku Sósí­al­ista­flokks­ins lauk síðar þetta sama ár og Íslend­ing­ar ákváðu tveim­ur árum seinna að þiggja Mars­hall-aðstoð Banda­ríkja­manna og skipuðu sér í sveit vest­rænna ríkja í kalda stríðinu. Þá breytt­ust viðhorf Rússa. Þeir vildu ekki halda viðskipt­un­um áfram. Guðni velt­ir því fyr­ir sér hvort kannski megi kalla það viðskiptaþving­un á sinn hátt.

Sam­felld viðskipti frá 1953

Afstaða Rússa til viðskipta við Ísland ger­breytt­ist fimm árum seinna. Þá áttu Íslend­ing­ar í land­helg­is­deilu við Breta, sem leiddi til þess að lönd­un­ar­bann var sett á ís­lenska tog­ara í Bretlandi. Al­var­legt ástand var þá að skap­ast í ís­lensku efna­hags­lífi. „Ráðamenn í Moskvu vildu byggja upp þá mynd af sér að þeir væru vin­ir Íslands í raun,“ seg­ir Guðni. Póli­tísk sjón­ar­mið hafi vafa­laust ráðið miklu þegar samið var um kaup Rússa á miklu magni af fiskaf­urðum frá Íslandi á þess­um tíma. Ekki var greitt fyr­ir í doll­ur­um eins og fyrr held­ur var um vöru­skipti að ræða; fengu Íslend­ing­ar olíu og bens­ín, sement og járn. Samn­ing­ur­inn sem var gerður í ág­úst 1953 markaði upp­haf viðskipta sem ekki áttu eft­ir að rofna fyrr en nú með ákvörðun Rússa að setja viðskipta­bann á Ísland vegna stuðnings rík­is­stjórn­ar­inn­ar við tak­markaðar viðskiptaþving­an­ir Banda­ríkj­anna og Vest­ur-Evr­ópu­ríkja.

Höfðu í hót­un­um

Íslensk stjórn­völd stóðu þétt við hlið banda­manna sinna í Atlants­hafs­banda­lag­inu á tíma kalda stríðsins. Stjórn­völd hér tóku jafn­an und­ir álykt­an­ir þar sem ýms­ar aðgerðir Rússa í Aust­ur-Evr­ópu og víðar, mann­rétt­inda­brot og útþenslu­stefna, voru for­dæmd­ar. En þetta hafði ekki áhrif á viðskipti þjóðanna. Þeim var haldið áfram þrátt fyr­ir mik­inn póli­tísk­an ágrein­ing.

Í byrj­un átt­unda ára­tug­ar­ins, þegar vinstri­stjórn áformaði upp­sögn varn­ar­samn­ings­ins við Banda­rík­in, voru uppi sögu­sagn­ir um að Rúss­ar væru að tjalda­baki að beita stjórn­ina þrýst­ingi um að hraða mál­inu með því að gefa í skyn að ella gætu viðskipti land­anna verið í hættu. Birt­ust m.a. um þetta frétt­ir í er­lend­um fjöl­miðlum og hér í Morg­un­blaðinu. Þessu var þó harðlega mót­mælt af ráðherr­um í rík­is­stjórn­inni.

Guðni seg­ir að gögn sýni ótví­rætt að ráðamenn í Moskvu hafi í byrj­un tí­unda ára­tug­ars­ins haft í óbein­um hót­un­um við Íslend­inga um fram­hald viðskipta eft­ir að Íslend­ing­ar lýstu yfir stuðningi við sjálf­stæðis­bar­áttu Eystra­salts­ríkj­anna sem inn­limuð höfðu verið í Sov­ét­rík­in með hervaldi í lok seinni heims­styrj­ald­ar. Var sendi­herra Íslands í Moskvu m.a. kallaður í ut­an­rík­is­ráðuneytið þar í janú­ar 1991 þar sem hann fékk að heyra að Íslend­ing­ar gætu átt von á „harka­leg­um gagnaðgerðum“ sem gætu haft áhrif á sam­skipti þjóðanna.

Ekk­ert varð af þessu, enda hrundi þetta mikla stór­veldi sama ár. „At­hygl­is­vert er að í árs­byrj­un 1991 sátu ís­lensk­ir emb­ætt­is­menn við samn­inga­borð við Rússa í Moskvu á sama tíma og þáver­andi ut­an­rík­is­ráðherra, Jón Bald­vin Hanni­bals­son, var í Eystra­saltslönd­un­um og for­dæmdi of­beldi sem rúss­nesk­ar sér­sveit­ir beittu í land­inu,“ seg­ir Guðni. „Íslend­ing­ar hefðu þá getað sagt að þeir ættu ekki í viðskipt­um við þá sem kúguðu smáþjóðir. Það gerðu þeir ekki. Kreml­verj­ar hefðu getað til­kynnt að þeir myndu ekki semja um frek­ari viðskipti nema Íslend­ing­ar hættu stuðningi við aðskilnaðarsinna í Eystra­saltslönd­un­um. En til þess kom ekki.“ Þegar Alþingi samþykkti í fe­brú­ar 1992 að viður­kenna sjálf­stæði Lit­há­ens kölluðu Rúss­ar sendi­herra sinn á Íslandi heim. Sneri hann ekki aft­ur fyrr en nokkr­um mánuðum seinna.

Vildu minnka viðskipt­in

Þegar Rúss­ar réðust inn í Af­gan­ist­an í des­em­ber 1979 tóku Íslend­ing­ar und­ir harða gagn­rýni alþjóðasam­fé­lags­ins á þá. Í janú­ar 1980 samþykktu fasta­full­trú­ar Atlants­hafs­banda­lags­ins, þar á meðal full­trúi Íslands, að aðild­arþjóðirn­ar skyldu draga úr viðskipt­um við Rússa til að refsa þeim fyr­ir inn­rás­ina. Ekki er að sjá að neitt hafi verið gert hér á landi til að fylgja þess­ari samþykkt eft­ir. Reynd­ar virðast Banda­ríkja­menn ein­ir hafa beitt Rússa viðskiptaþving­un­um vegna inn­rás­ar­inn­ar.

Hér á landi kom stund­um til umræðu að fá mætti í öðrum lönd­um betri og ódýr­ari vör­ur en þær sem keypt­ar voru af Rúss­um í vöru­skipt­um fyr­ir fiskaf­urðir héðan. Einkum var rætt um olíu og bens­ín í því sam­bandi. Íslensku fyr­ir­tæk­in sem áttu í viðskipt­um við Rússa brugðust jafn­an illa við þess­um umræðum og hef­ur því oft verið lýst hér í blaðinu hvernig reynt var að þagga niður í rit­stjór­um Morg­un­blaðsins sem létu nokkuð að sér kveða í gagn­rýni á viðskipt­in við Rússa.

Ár er liðið síðan ís­lensk stjórn­völd ákváðu að taka þátt í viðskiptaþving­un­um Evr­ópu­sam­bands­ins og fleiri ríkja gegn rúss­nesk­um yf­ir­völd­um í mót­mæla­skyni við fram­ferði þeirra í Úkraínu. Þving­an­irn­ar eru á tak­mörkuðum sviðum. Þetta leiddi til þess að Rúss­ar ákváðu að banna inn­flutn­ing á mat­væl­um frá viðkom­andi ríkj­um. Ísland var þó í hópi nokk­urra ríkja sem und­an­skil­in voru bann­inu án þess að upp­lýst væri um ástæður þess. Eft­ir að viðskiptaþving­an­ir Vest­ur­landa voru ít­rekaðar nú í sum­ar með þátt­töku Íslands breytt­ist afstaða Rússa. Nú hafa þeir ákveðið að loka á all­an inn­flutn­ing á ís­lensk­um fiskaf­urðum í eitt ár.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina