Mörgæsir græði á bráðnuninni

Mörgæsir á Suðurskautslandinu.
Mörgæsir á Suðurskautslandinu. Ljósmynd/Wikipedia

Bráðnun jökla á Suður­skautsland­inu vegna hnatt­rænn­ar hlýn­un­ar er slæm­ar frétt­ir fyr­ir mann­kynið en hún gæti hins veg­ar verið góðar frétt­ir fyr­ir mörgæs­ir og annað líf á þeim slóðum. Ný rann­sókn bend­ir til þess að bráðnun­in geri hafið frjó­sam­ara fyr­ir plöntu­svif  sem er und­ir­staða líf­rík­is­ins.

Hlut­ar ís­hell­unn­ar á Suður­skautsland­inu bráðna nú hratt vegna hlýn­andi lofts­lags á jörðinni af völd­um los­un­ar manna á gróður­húsaloft­teg­und­um. Það eru slæm­ar frétt­ir fyr­ir mann­kynið enda gæti yf­ir­borð sjáv­ar hækkað um rúma þrjá metra bráðni vest­ur­hluti ís­hell­unn­ar al­veg.

Rann­sókn haffræðings­ins Kevin Arrigo og fé­laga hans við Stan­ford-há­skóla í Banda­ríkj­un­um sem birt­ist í „Journal of Geop­h­ysical Rese­arch: Oce­ans“ bend­ir til þess að hag­ur mörgæsa og ann­ars lífs við Suður­skautslandið gæti hins veg­ar vænkast með áfram­hald­andi bráðnun.

Vís­inda­menn­irn­ir komust að því að plöntu­svifið blómstr­ar vegna þess að leys­ing­ar­vatn jökl­anna ber með sér mikið magn járns sem er mik­il­vægt nær­ing­ar­efni fyr­ir það. Vegna þess að bráðnun­in er að áger­ast er lík­legt að plöntu­svifið fær­ist í auk­ana. Það geti haft já­kvæð áhrif upp fæðukeðjuna, fyr­ir allt frá átu og önn­ur smá­dýr til stærri dýra eins fisks, mörgæsa og hvala.

Lofts­lags­breyt­ing­ar eru þó ekki að öllu leyti góðar frétt­ir fyr­ir mörgæs­irn­ar á Suður­skautsland­inu. Aðrar rann­sókn­ir benda til þess að ung­ar hafi drep­ist vegna vax­andi öfga í veðurfari og að mörgæs­irn­ar eigi erfiðara með að afla sér fæðu.

Frétt Washingt­on Post af rann­sókn­inni á plöntu­svifi við Suður­skautslandið

mbl.is