Bráðnun jökla á Suðurskautslandinu vegna hnattrænnar hlýnunar er slæmar fréttir fyrir mannkynið en hún gæti hins vegar verið góðar fréttir fyrir mörgæsir og annað líf á þeim slóðum. Ný rannsókn bendir til þess að bráðnunin geri hafið frjósamara fyrir plöntusvif sem er undirstaða lífríkisins.
Hlutar íshellunnar á Suðurskautslandinu bráðna nú hratt vegna hlýnandi loftslags á jörðinni af völdum losunar manna á gróðurhúsalofttegundum. Það eru slæmar fréttir fyrir mannkynið enda gæti yfirborð sjávar hækkað um rúma þrjá metra bráðni vesturhluti íshellunnar alveg.
Rannsókn haffræðingsins Kevin Arrigo og félaga hans við Stanford-háskóla í Bandaríkjunum sem birtist í „Journal of Geophysical Research: Oceans“ bendir til þess að hagur mörgæsa og annars lífs við Suðurskautslandið gæti hins vegar vænkast með áframhaldandi bráðnun.
Vísindamennirnir komust að því að plöntusvifið blómstrar vegna þess að leysingarvatn jöklanna ber með sér mikið magn járns sem er mikilvægt næringarefni fyrir það. Vegna þess að bráðnunin er að ágerast er líklegt að plöntusvifið færist í aukana. Það geti haft jákvæð áhrif upp fæðukeðjuna, fyrir allt frá átu og önnur smádýr til stærri dýra eins fisks, mörgæsa og hvala.
Loftslagsbreytingar eru þó ekki að öllu leyti góðar fréttir fyrir mörgæsirnar á Suðurskautslandinu. Aðrar rannsóknir benda til þess að ungar hafi drepist vegna vaxandi öfga í veðurfari og að mörgæsirnar eigi erfiðara með að afla sér fæðu.
Frétt Washington Post af rannsókninni á plöntusvifi við Suðurskautslandið