„Við erum klárlega hagsmunaaðilar í málinu,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, í samtali við mbl.is en ekki hefur verið haft samband við fulltrúa sjómanna og fiskvinnslufólks í tengslum við samráðsvettvang stjórnvalda og hagsmunaaðila sem komið hefur verið á fót vegna viðskiptaþvingana Rússa gegn Íslandi.
Fyrsti fundur samráðsvettvangsins fór fram í gær þar sem fulltrúar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi mættu til fundar. Fulltrúar smábátasjómanna og fiskeldisstöðva verða síða kallaðir til fundar í dag. Valmundur segir að stjórnvöld hafi ekki haft samband við Sjómannasambandið en honum þætti eðlilegt að það væri gert enda hefðu sjómenn, sem og fiskvinnslufólk í landi, mikilla hagsmuna að gæta vegna viðskiptaþvingananna sem beinast munu einkum að sjávarafurðum.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, tekur í sama streng. Þegar aðstæður sem varðað hafa hagsmuni bæði atvinnurekenda og launafólks hafi komið upp hafi stjórnvöld iðulega veitt báðum aðilum tækifæri til þess að koma að málum. „Þannig að tel ég eðlilegt að fulltrúar bæði fiskvinnslufólks og sjómanna ættu beina aðkomu að málinu.“