Sú upphæð sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) lögðu fram fyrir utanríkismálanefnd Alþingis um fjárhagslega hagsmuni vegna Rússlandsmarkaðs rímar illa við orð sjávarútvegsmanna fyrir viðskiptabannið og gæti verið ofaukin um rúmlega 6 milljarða. Í minnisblaði samtakanna kom fram að útflutningur sjávarafurða væri áætlað 37 milljarðar á þessu ári ef ekki væri fyrir bannið, en það er aukning um 6 milljarða frá árinu áður. Gagnrýndu samtökin stjórnvöld fyrir að hafa notað tölur frá Hagstofunni sem gáfu til kynna að fjárhagslegir hagsmunir væru nær um 22 milljörðum.
Ef miðað er við útflutningstölur Hagstofunnar beint til Rússlands þá var gert ráð fyrir því að heildarverðmæti fyrir helstu fisktegundirnar, eins og makríl, síld, loðnu og karfa, hafi verið um 22 milljarðar í fyrra. Í frétt mbl.is í gær var haft eftir Jens Garðari Helgason, formanni SFS, að þar væri ekki horft til þess magns sem væri flutt til Litháen og Hollands og umskipað þar. Segir hann réttara að horfa til þess að 80% af því sem fari til Litháen og 40% af því sem fari til Hollands endi einnig á Rússamarkaði.
Út frá þessum forsendum reiknuðu samtökin það út að heildar útflutningur til Rússlands árið 2014 hafi verið um 31,2 milljarðar. Í minnisblaði samtakanna, sem var lagt fram á fundi utanríkismálanefndar Alþingis 10. ágúst, er gert ráð fyrir að makrílsalan hafi numið um 12,1 milljarði, síld hafi verið seld fyrir 8,8 milljarða, loðna fyrir 5,6 milljarða og karfi fyrir 3,5 milljarða. Þá er talsvert minna flutt út af gulllaxi, kolmuna og öðrum botnfiski.
Í sama minniblaði er einnig reiknaður út áætlað söluverðmæti í Rússlandi á þessu ári ef ekki hefði komið til aðgerða rússneskra yfirvalda. Gert var ráð fyrir að söluverðmæti karfa myndi aukast smá, tvöföldun yrði í sölu loðnu, sala síldar myndi örlítið aukast og makríllinn svo gott sem standa í stað.
Forsendur þessara útreikninga byggja á því að kvóti fyrir loðnu var tvöfaldaður á árinu, að útflutningsverðmæti karfa aukist um 10% og að verð á makríl standi í stað frá síðasta ári. Niðurstaðan er sú að áætlað útflutningsverðmæti er rúmlega 6 milljörðum hærra í ár en það var í fyrra og skiptir þar stærstu máli tvöföldun á áætlaðri sölu loðnu.
Forsendan um makrílverðmætið er í nokkru ósamræmi við stöðu markaða eins og hún var núna í sumar, en í júlí og byrjun ágúst sögðu margir útgerðamenn að staðan liti illa út á mörkuðum og að verð á makríl væri mun lægra en á sama tíma í fyrra. Þá höfðu menn áhyggjur af því að enn væru birgðir frá í fyrra í geymslum hér á landi. Það skýtur því nokkuð skökku við að gert sé ráð fyrir sama verðmæti makrílsins milli ára, þrátt fyrir þessa breytingu. Á móti kemur að makrílkvótinn var aukinn um fimm þúsund tonn milli ára. Kvótinn í ár er 173 þúsund tonn, en var í fyrra um 168 þúsund tonn. Það er aukning upp á 2,9% milli ára.
Í frétt í Morgunblaðinu þann 30. júlí var rætt við Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar. Sagði hann þar að þetta væri „þyngsta byrjun á makrílvertíð“ sem fyrirtækið hafi farið inn í frá því að veiðar hófust. Þá sagði hann stöðu á mörkuðum þunga, meðal annars vegna gjaldeyrishafta og efnahagsástands í Nígeríu. Segir hann einnig að rólegt sé yfir Rússlandsmarkaði. Þá segir hann að ef ekki verði breyting á markaðinum sé ljóst að sjávarútvegsfyrirtæki séu að sigla inn í mjög mikla erfiðleika við að losa vöruna. Þau standi frammi fyrir umtalsverðum verðlækkunum á því magni sem verður hægt að selja. Þá segir hann að útvegsfyrirtækin séu að taka áhættu með veiðunum og að framleiðslan sé á leið í geymslur.
Í sömu grein er haft eftir Erni Pálssyni, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda að verðið sem nú fáist sé um helmingur af því sem fékkst í fyrra, eða 43-47 krónur samanborið við 85-90 krónur í fyrra.
Tveimur dögum síðar, eða 1. ágúst, segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, „útlitið svart“ og að treglega gangi að selja fiskinn. Þá hafi verið áætlað í júní að 10 þúsund tonn frá 2014 séu enn óseld í geymslum.
Teitur Gylfason, sölustjóri hjá Iceland Seafood, fer í viðtali við Morgunblaðið 6. ágúst yfir stöðuna á mörkuðum og segir að verðið á makríl hafi fallið um 35-40%. Varar hann þá við að verðið geti fallið enn meira komi til viðskiptabanns frá Rússlandi.
Þann 13. ágúst var svo tilkynnt um ákvörðun Rússa að setja á viðskiptabann.
Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri SFS, segir í samtali við mbl.is að hægt sé að deila um þær forsendur sem séu notaðar um verðþróun og því hafi í útreikningunum fyrir minnisblaðið verið ákveðið að byggja á óbreyttu magni og verði á makríl frá í fyrra. Segir hann fjölda atriða geta spilað í verðþróun og eftirspurn, meðal annars hreyfingar á rúblunni og fleira og því hafi þótt best að halda sömu tölum í fyrra.
Séu tölurnar sem Örn lagði fram um aflaverðmæti makrílsins hins vegar notaðar, horft sé til aukningar í makrílkvóta og þeirrar verðlækkunar sem hafi átt sér stað má aftur á móti gera ráð fyrir því að verðmæti makrílsins sé aðeins um 54% af því sem hann var í fyrra. Það myndi lækka áætlað útflutningsverðmæti makrílsins niður í 6,5 milljarða í stað 12,1 milljarðs og áætlað heildarútflutningsverðmæti til Rússlands niður í 30,8 milljarða fyrir þetta ár í stað 37,3 milljarða. Væri þá upphæðin nokkuð svipuð því sem hún var í fyrra, þrátt fyrir tvöföldun í loðnukvóta.