Stjórnvöld í Noregi hafa gefið grænt ljós á olíuvinnslu á Johan Sverdrup-svæðinu í Norðursjó, en olíu- og orkumálaráðherran Tord Lien segir verkefnið afar þýðingarmikið fyrir atvinnulíf og starfsemi á svæðinu.
Það er norski olíurisinn Statoil sem fer fyrir verkefninu en mjög hefur dregið úr fjárfestingu í olíuiðnaðinum í Noregi vegna lækkandi olíuverðs. Stærð olíuiðnaðarins í landinu samsvarar um 20% af þjóðarbúskapnum.
Vegna þróunarinnar á mörkuðum hefur störfum í iðnaðinum fækkað um 20.000 í Noregi frá ársbyrjun 2014, en atvinnuleysi í landinu nemur nú 4,3%. Þetta er ekki hátt hlutfall miðað við aðrar Evrópuþjóðir, en mesta atvinnuleysi sem Norðmenn hafa upplifað í áratug.
Gert er ráð fyrir að framleiðsla á Johan Sverdrup-svæðinu hefjist í árslok 2019. Áætlað er að fjárfesting í fyrsta fasa verkefnisins muni nema 12,7 milljörðum evra, en aðstandendur þess vonast til þess að reikningurinn muni lækka vegna minnkandi kostnaðar í olíuiðnainum.
Verktakasamningar að verðmæti 40 milljarða norskra króna hafa þegar verið undirritaðir í tengslum við verkefnið, en stjórnendur Statoil segja að nú verði gefið í og gengið frá fleiri samningum i haust.
Gert er ráð fyrir að 51.000 störf muni skapast í tengslum við vinnslu á Johan Sverdrup-svæðinu. Í fyrsta fasa er áætlað að framleiðsla muni nema 315.000 til 380.000 tunnum á dag, en 550.000 til 650.000 tunnum þegar vinnsla verður komin í fullan gang.
Framleiðslugeta Noregs nemur um þessar mundir 1,5 milljón tunnum á dag.
Statoil á 40,03% í verkefninu, sænska samsteypan Lundin 22,60%, norska ríkisfyrirtækið Petoro 17,36%, einkafyrirtækið Norwegian 11,57% og hið danska Maersk 8,44%.