Margrét EA, eitt af skipum Samherja, landaði í vikunni um þúsund tonnum, að mestu makríl, hjá Faroe Pelagic í Kollafirði í Færeyjum.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir að ákvörðun um löndun í Færeyjum hafi m.a. verið tekin með tilliti til þess að hráefnisstaða fyrirtækja á Austfjörðum hafi verið góð þegar Margrét fékk þennan afla í hafinu milli Íslands og Færeyja.
Staðan sé sú að á sama tíma og markaðsbrestur steðji að íslenskum sjávarútvegi geti grannar okkar í austri og vestri óhindrað selt makríl til okkar fyrri viðskiptavina í Rússlandi. Þar í landi séu kröfuharðir kaupendur sem Íslendingar hafi þjónað um árabil.