Fjölskyldu einni í New Jersey brá heldur betur í brún þegar þau fengu óvænta heimsókn frá bjarnafjölskyldu. Bjarnafjölskyldan fékk afnot af sundlaug Tim Basso og fjölskyldu hans í Rockaway Township í New Jersey.
Í viðtali við News 12 New Jersey segir Basso að hann hafi fyrst talið að bjarnafjölskyldan hafi ætlað að fá sér að drekka úr lauginni en svo var ekki.
Basso náði öllu athæfinu á myndband en þar sést bjarnafjölskyldan skemmta sér saman með leikföng úr lauginni. Þrátt fyrir að sundlaugin og dótið hafi skemmst að hluta í látunum segir Basso að gestirnir hafi alls ekki verið svo slæmir.
Fjölskyldan tilkynnti atvikið til lögreglu en það var lítið hægt að gera í málinu. Birnirnir yfirgáfu laugina sjálfviljugir eftir að hafa verið að leik í rúma klukkustund.