Samráðshópur um viðbrögð vegna innflutningsbanns Rússa á matvæli frá Íslandi mætti á fund utanríkismálanefndar Alþingis í dag, þar sem farið var yfir stöðu mála og verkefni hópsins.
Að sögn Vilhjálms Bjarnasonar, 2. varaformanns nefndarinnar, kom fátt nýtt fram á fundinum.
„Þetta var fyrst og fremst upplýsingafundur og engar ákvarðanir teknar. Við vorum bara frædd um það hvernig staðan væri, þannig að það var fátt annað sem kom fram og engar ákvarðanir teknar og engar tillögur lagðar fram,“ segir Vilhjálmur.
Ákvörðun um samráðshópinn var tekin í ríkisstjórn og var þetta því í fyrsta sinn sem hann var ræddur í utanríkismálanefnd.
Á fundinum í dag kom meðal annars fram að meðal þess sem verður til umfjöllunar á vettvangi samráðshópsins verða málefni þeirra sveitarfélaga sem „harðast verða úti,“ eins og Vilhjálmur orðar það.
„Það eru ákveðin sveitarfélög sem eiga meira undir en önnur,“ segir hann.
Í samráðshópnum sitja Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Ingibjörg Davíðsdóttir fyrir forsætisráðuneytið, Högni S. Kristjánsson og Kristján Andri Stefánsson fyrir utanríkisráðuneytið, og Sigurgeir Þorgeirsson og Jóhann Guðmundsson fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.