Dönsk kvikmyndagerð í brennidepli á RIFF

Kastljósinu verður beint sérstaklega að danskri kvikmyndagerð á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, sem hefst 24. september og stendur til 4. október. Átta nýjar kvikmyndir frá Danmörku verða sýndar og þ. á m. nýjustu myndir Susanne Bier og Bille August. Einnig verður staðið fyrir umræðum um þá miklu grósku sem verið hefur hin síðustu ár í danskri kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð.

Nýjasta kvikmynd Susanne Bier nefnist En chance til og fjallar um syrgjandi lögreglumann sem laumast til að skipta út nýlátnu barni sínu fyrir ungbarn sem býr við vanrækslu í eiturlyfjagreni. Krigen, eftir leikstjórann Tobias Lindholm sem skrifaði handrit Jagten, Submarino og sjónvarpsþáttanna Borgen, fjallar um liðsforingja í Afganistan sem tekur afdrifaríka ákvörðun þegar árás er gerð á hann og hersveit hans.

Guldkysten eftir leikstjórann Daniel Dencik gerist árið 1836 og segir frá Joseph Wulff, sem flytur frá unnustu sinni í Danmörku til Dönsku Gíneu þar sem hann hyggst rækta kaffi. Þar kynnist hann heimi grimmilegs þrælahalds og hörku og neyðist Wulff til að taka siðferðislega afstöðu.

I dine hænder

eftir leikstjórann Samanou Acheche Sahlstrøm segir af hjúkrunarfræðingnum Maríu sem kemur í veg fyrir sjálfsvíg langveiks manns og heldur með honum í örlagaríka ferð til Sviss, þar sem líknardráp er löglegt. Myndin var valin besta norræna kvikmyndin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Gautaborg á þessu ári.

Lang historie kort eftir May el-Toukhy fjallar um vinahóp sem kemur saman í átta veislum á þremur árum. Vinirnir eru í kringum fertugt og þurfa að endurskoða glanshugmyndir sínar um ástina og rómantík, eins og segir í tilkynningu.

Fjölskylduátök

Mænd og Høns eftir leikstjórann Anders Thomas Jensen segir af útbrunnum háskólaprófessor og bróður hans sem hefur, ólíkt honum, aðeins áhuga á konum og tilgangslausum fróðleik. Þegar faðir þeirra deyr komast þeir að því að hann er ekki líffræðilegur faðir þeirra og leita þeir þá uppi blóðfjölskyldu sína. Myndin er sögð kolsvört gamanmynd.

Rosita eftir Frederikke Aspöck fjallar um miðaldra ekkil í leit að eiginkonu. Hann finnur hana á Filippseyjum og fær hana til að flytja til Danmerkur en babb kemur í bátinn þegar hún verður hrifin af syni hans.

Stille hjerte

, eftir Bille August, segir af þremur ættliðum sem koma saman yfir helgi til að kveðja ættmóðurina Esther, sem þjáist af ólæknandi sjúkdómi og ætlar að svipta sig lífi að lokinni helgi með aðstoð eiginmanns síns. Þegar kveðjustundin nálgast koma hins vegar óuppgerð mál upp úr kafinu. Myndin hlaut fern verðlaun á dönsku kvikmyndaverðlaununum, Bodil, í ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: