Yfirvöld í Texas segja að myndband sýni að Gilbert Flores sem var skotinn til bana af lögreglu hafi jafnvel haldið á hníf er hann var skotinn. Líkt og fram hefur komið var hann skotinn til bana með upprétta hönd. Í myndskeiði sem áður hafði verið birt sést hins vegar ekki hin höndin.
Að sögn lögreglu sýnir síðara myndskeiðið Flores, 41 árs, með aðra hendi upprétta en í hinni heldur hann á einhverju sem líkist hnífsblaði. Seinna myndskeiðið hefur ekki verið birt, samkvæmt frétt BBC.
Tveir lögreglumenn í San Antonio, Greg Vasquez og Robert Sanchez, voru sendir á heimili Flores en tilkynnt hafði verið um heimilisofbeldi á staðnum. Þegar þeir komu á vettvang hittu þeir Flores fyrir utan húsið. Að þeirra sögn var kona inni í húsinu með svöðusár á höfði og hélt á litlu barni sem einnig var sært.
Lögreglumennirnir hafa verið sendir í leyfi á meðan rannsókn málsins stendur.
Skotinn til bana með upprétta hönd