Ófærð verður lokamyndin á RIFF

Sjónvarpsþáttaröðin Ófærð var tekin upp á Siglufirði.
Sjónvarpsþáttaröðin Ófærð var tekin upp á Siglufirði.

Tilkynnt hefur verið að lokamynd kvikmyndahátíðarinnar RIFF séu fyrstu tveir þættirnir af þáttaröð Baltasars Kormáks og Reykjavík Studios, Ófærð. 

Í tilkynningu frá hátíðinni segir að beðið hafi verið af mikilli eftirvæntingu eftir þáttaröðinni, sem sýnd verður í kringum jólahátíðirnar á RÚV og seld hefur verið til fjölmargra landa.  Ófærð er dýrasta íslenska sjónvarpsþáttaröð sem framleidd hefur verið og var tekin upp meðal annars í Reykjavík, Siglufirði og á Seyðisfirði.

Þættirnir fjalla um lögreglustjórann Andra, sem er lögreglustjóri í litlu þorpi á landsbyggðinni. Býr hann þar með dætrum sínum á heimili tengdaforeldra sinna, en eiginkona hans er flutt til Reykjavíkur þar sem hún er tekin saman við annan mann. Andri er ekki tilbúinn að sætta sig við að hjónabandið sé á enda og er líf allrar fjölskyldunnar því í millibilsástandi. Allt breytist hins vegar þegar sundurlimað lík finnst í firðinum.

mbl.is