Ljúfsárt samband mitt við sykur……

Margrét Leifsdóttir, arkitekt og heilsumarkþjálfi.
Margrét Leifsdóttir, arkitekt og heilsumarkþjálfi. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Margrét Leifsdóttir heilsumarkþjálfi skrifar um sykur og sykurneyslu í tilefni af Sykurlausum september á Smartlandi Mörtu Maríu:

Mér finnst sykur góður! Hann veitir mér skammtíma vellíðan og er alltaf til staðar fyrir mig, til dæmis þegar ég er leið, pirruð eða sorgmædd.

En ég er með exem og þegar ég borða mikinn sykur þá gerist eitthvað af eftirfarandi;

Ég versna í exeminu, kláði eykst og húðin þrútnar

Ég verð pirruð

Ég verð óróleg

Ég verð þreytt þegar blóðsykurinn fellur Mér líður ekki vel

Ég borða samt sykur (með hléum) og er þeirrar skoðunar að við eigum að tala almennt vel um mat.

Hins vegar er mikilvægt að við áttum okkur á hvaða áhrif ákveðnar matartegundir hafa á okkur og að við tökum meðvitaðar ákvarðanir um að borða mat sem gerir okkur ekki gott og að við skoðum afleiðingarnar án þess að dæma okkur. Alveg eins og sumir af vinum okkar taka frá okkur orku, þau eru gott fólk en við ákveðum að umgangast þau ekki of mikið því það dregur úr okkar eigin krafti. Það hentar mér að líta á sykur sem vin sem tekur frá mér orku, en samt vil ég stundum hitta hann, en ég má alls ekki vera of mikið með honum og ég geri mér vel grein fyrir afleiðingunum.

Sumum hentar að útiloka sykur alveg úr lífi sínu því þeim gengur illa að umgangast hann í hófi. Þetta verður hver og einn að finna út fyrir sig. Það er nefnilega hægt að finna sætuna í lífinu í mörgu öðru en sykri. 

Aðalatriðið varðandi mat er að við lítum á hann sem orkugjafa. Ef við lítum á líkama okkar eins og flottan Ferrari sportbíl, þá þýðir ekkert að bjóða honum eitthvað ódýrt bensín, neibbs, það verður að vera það besta!

En ef mér líður ekki vel, þá finnst mér líkami minn ekki vera Ferrari sportbíll, þá finnst mér hann vera meira svona gamall skrjóður og þá býð ég honum frekar uppá ódýrt bensín eins og til dæmis sykur. Greyið skrjóðurinn hann skröltir alveg áfram en ekki næstum því eins hratt og mjúklega og Ferrariinn! Við hvaða aðstæður líður þér eins og líkami þinn sé skrjóður? Skrifaðu þau atriði sem þér detta í hug niður á blað. Það gæti verið eitt af eftirfarandi atriðum;

1. Þegar ég kem heim svöng/svangur eftir vinnudaginn

2. Þegar börnin mín eru þreytt og pirruð og ég ræð ekki við aðstæður

3. Seinni partinn í vinnunni

4. Þegar mig vantar ást og umhyggju

5. Þegar ég er reið/ur út í einhvern Síðan þarftu að gera aðgerðaplan.

Hvað getur þú gert annað við þessar aðstæður en að fá þér sykur?

Dæmi um mótvægisaðgerðir;

1. Það bíður þín grænn drykkur í ísskápnum eða girnilegur ávöxtur þegar þú kemur heim, eða e-ð annað hollt sem þú getur gripið og borðað beint.

2. Fáðu þér tvö vatnsglös og slakaðu á í 5 mínútur áður en þú byrjar að fást við aðstæður

3. Þarftu hvíld? (geturðu lagt þig, eða tekið 5 – 10 mín. hugleiðslu?) eða þarftu hreyfingu og súrefni? (geturðu tekið 10 – 15 mín. göngutúr?)

4. Kallaðu eftir hlýju frá ástvinum, sæktu þér knús og knúsaðu í 6 sek.

5. Fáðu útrás fyrir reiði þína t.d. með góðri hreyfingu.

Skoðum hvað við erum að næra með sykrinum og athugum hvort við getum nært þörfina á annan hátt. Það að taka sykurlausan september er frábær leið til að losa okkur undan sykurfíkn og skoða samband okkar við þennan skrýtna vin okkar sem við ætlum ekkert að hitta í september. En það er gott að vita af því að hann fer ekki neitt, hann verður ekkert móðgaður þó við tölum ekkert við hann í heilan mánuð eða jafnvel lengur. Í heildina snýst þetta ekki um þennan eina mánuð heldur langtímavenjur okkar og samband okkar við mat. Þegar við tökum heilan mánuð án sykurs þá bætum við meðvitund okkar og breytum venjum og lífstíl okkar til hins betra.

Gangi ykkur vel!

Margrét Leifsdóttir, arkitekt og heilsumarkþjálfi.
Margrét Leifsdóttir, arkitekt og heilsumarkþjálfi. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
mbl.is