Ekki verður hægt að ná samkomulagi um að berjast gegn loftslagsbreytingum á jörðinni nema að iðnríkin skuldbindi sig fjárhagslega til að aðstoða þróunarríkin. Þetta segir François Hollande, forseti Frakklands, sem varar við því að loftslagsfundur Sameinuðu þjóðanna í París gæti reynst árangurslaus ef ekki næst samkomulag um peningahliðina.
Fundurinn verður haldinn í París dagana 30. nóvember til 11. desember. Þar er ætlunin að ná bindandi samkomulagi á milli þjóða heims um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum.
Hollande ræddi um mikilvægi þess að ná samkomulagi á milli þróaðra ríkja og þróunarríkja um fjármögnun aðgerðanna á blaðamannafundi í frönsku höfuðborginni í dag þar sem utanríkis- og umhverfisráðherrar aðildarríkja að loftslagssamningi SÞ hafa fundað síðustu tvo daga um einmitt þau málefni.
Fjármögnunin er mikilvæg til þess að hjálpa þróunarríkjum að byggja upp endurnýjanlega orkugjafa til að knýja áfram þróun sína í stað þess að nota jarðefnaeldsneyti sem er orsök loftslagsbreytinganna og til að aðlagast þeim breytingum sem eru að verða á jörðinni vegna fyrri losunar þróuðu ríkjanna á gróðurhúsalofttegundum.
„Allt mun velta á fjármununum. Hættan er að þetta mistakist,“ sagði Hollande.
Lorent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, lagði áherslu á að þróuð ríki stæðu við það loforð sem þau gáfu árið 2009 að veita hundrað milljörðum dollara árlega frá árinu 2020 til þess að ná þessum markmiðum.