Aðeins jákvæð óvissa um fjárlög

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnti fjármálafrumvarpið fyrir blaðamönnum í hádeginu.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, kynnti fjármálafrumvarpið fyrir blaðamönnum í hádeginu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki er gert ráð fyrir neinum tekjum í formi stöðugleikaskatts frá slitabúum í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir þá óvissu sem sé til staðar um losun fjármagnshafta aðeins geta bætt afkomu ríkissjóðs frá því sem áætlað er í fjárlagafrumvarpinu sem var kynnt í dag.

Gert er ráð fyrir 15,3 milljarða króna afgangi af fjárlögum fyrir árið 2016 í frumvarpinu sem lagt var fram á Alþingi í dag. Þar er einnig gert ráð fyrir að vaxtagjöld og hlutfall skulda af landsframleiðslu lækki hratt á næstu árum. Þá er ekki teknar með í reikninginn mögulegar tekjur ríkissjóðs af svonefndum stöðugleikaskatti sem boðaður hefur verið á slitabú fallinna fjármálastofnana sem gæti komið til greiðslu á næsta ár.

„Það er ekki gert ráð fyrir neinum skatti á tekjuhliðinni en við sjáum það hins vegar að við munum í síðasta lagi um mitt næsta ár hafa svigrúm til að gera upp skuldabréfið sem hvílir í Seðlabankanum og stendur á ríkið. Við njótum góðs af því með lægri vaxtagjöldum. Að því marki sem óvissa er til staðar varðandi haftamálin mun hún einungis geta komið okkur til góða þannig að heildarafkoman verði betri, skuldirnar enn lægri og vaxtagjöldin þar með. Þannig að það er einungis óvissa í jákvæðum skilningi,“ sagði Bjarni í viðtali við mbl.is eftir að hann kynnti frumvarpið fyrir blaðamönnum í Hörpu í hádeginu.

Ekki er heldur gert ráð fyrir hagnaði af sölu á hlut ríkisins í Landsbankanum umfram bókfært virði hans, að sögn Bjarna. Hvernig sem úr því spilist verði áhrifin á tekjuhlið frumvarpsins engin.

„Vissulega erum við að gera ráð fyrir því að sala Landsbankans geti gagnast til að gera upp skuldir sem stofnað var til við fjármögnun hans á sínum tíma,“ bætir fjármálaráðherra þó við.

Skipta ávinningi af uppsveiflu á milli ríkis og fólksins í landinu

Umfangsmikið afnám tolla er boðað í frumvarpinu á allt nema tiltekna matvöru. Bjarni segir þetta mögulegt þar sem að hlutfall tolla af heildartekjum ríkisins hafi farið lækkandi, meðal annars vegna fjölgunar fríverslunarsamninga. Nú standi tollar aðeins undir um það bil 1% af heildartekjum ríkisins.

„En þeir eru að þvælast víða fyrir, leggjast á um 1.600 vöruflokka. Þetta eru 7,5% hér, 10% þar, sums staðar 15% og eru að skekkja samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar og draga úr möguleikum fólks á að njóta góðs af þeim möguleikum sem netið hefur upp á að bjóða í verslun. Það er orðið löngu tímabært að afnema þá og það er sérstaklega ánægjulegt að geta gert það strax í kjölfarið af því að við felldum niður öll almenn vörugjöld,“ segir Bjarni.

Niðurfellingarnar á tollum, lækkun á tekjuskatti einstaklinga og fleiri skattakerfisbreytingar sem eru áformaðar munu draga úr tekjum ríkisins um 7,4 milljarða króna á næsta ári að því er kemur fram í frumvarpinu. Þegar síðari áfangi breytinga á tekjuskattskerfinu kemur til framkvæmda árið 2017 verði tekjurnar 14,5 milljörðum króna lægri en við núverandi kerfi.

Á móti þessum tekjumissi vegur það að áfram er rekin aðhaldssöm útgjaldastefna, að sögn fjármálaráðherra. Frumgjöld ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu hafi lækkað og þau hafi ekki hækkað að raungildi að neinu marki í langan tíma.

„Með því að halda aftur af útgjaldavextinum og nýta það svigrúm sem myndast með auknum hagvexti getum við skipt ávinningnum af uppsveiflunni á milli ríkissjóðs annars vegar þannig að skuldir verði greiddar upp og afgangur myndaður og hins vegar fólksins í landinu þannig að það sé létt af því sköttum og gjöldum,“ segir Bjarni.

mbl.is