Aukin framlög til Sinfó og Þjóðleikhúss

Sinfóníuhljómsveit Íslands
Sinfóníuhljómsveit Íslands mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framlög til Þjóðleikhússins og Sinfoníuhljómsveitar Íslands hækka í fjárlögum ársins 2016.

Framlög til leikhússins hækka um 135 milljónir króna að meðtöldum launa- og verðlagsbreytingum sem nema 55 milljónum króna

Hækkunin skýrist af tvennu. Í fyrsta lagi er lögð til 20 milljóna króna hækkun til að styrkja rekstur leikhússins. Í öðru lagi er lögð til 60 milljóna króna hækkun á framlagi vegna viðhalds og endurnýjunar tækjabúnaðar í leikhúsinu til viðbótar við 20 milljóna króna hækkun í fjárlögum 2015.

Leikhúsið hefur því samtals 80 milljónir króna til viðhalds og endurnýjunar tækjabúnaðar á árinu 2016. Er áætlað að heildarendurnýjun alls búnaðar muni kosta tæpar 300 milljónir króna.

Gert er ráð fyrir að framlag til Sinfó hækki um 50 milljónir króna frá yfirstandandi fjárlögum að frátöldum launa- og verðlagshækkunum sem nema 51,2 milljónum króna.

Hækkunin er sögð vera til að styrkja rekstrarstöðu hljómsveitarinnar. Þá er lögð til breyting á rekstrarumfangi sem fjármagnað er með sértekjum til lækkunar um 65,2 milljónum króna.

mbl.is