Bætur hækka um 9,4 prósent

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Útgjöld til bóta samkvæmt lögum um félagslega aðstoð hækka um 275 milljónir króna milli ára auk verðlagshækkana sem nema um 1,3 milljörðum króna. Hækkunin skýrist af verulegri hækkun bóta almannatrygginga á árinu 2016 eða sem nemur 9,4%. 

Heildarútgjöld til málaflokksins eru áætluð tæpir 15,4 milljarðar króna.

Í frumvarpinu segir að hækkun bótanna sé í takt við ákvæði laga um almannatryggingar sem kveður á um að fjárhæðir bóta almannatrygginga skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni og taka mið af launaþróun.

Í fyrrgreindri prósentuhækkun er tekið tillit til launaþróunar bæði á yfirstandandi ári og því næsta. Að teknu tilliti til 3% hækkunar í upphafi ársins 2015 verður hækkun bótanna á þessum tveimur árum þannig 12,7%.

Þegar einnig er litið 3,5% hækkunar í ársbyrjun 2014 verður uppsöfnuð hækkun til ársins 2016 orðin 16,6%. Spáð er að uppsöfnuð verðbólga yfir sama tímabil verði 8,7% þannig að ljóst er talið að kaupmáttur bótanna eykst umtalsvert.

Mesta aukningin vegna umönnunargreiðslna

Að öðru leyti skýrist útgjaldaaukningin af endurmati á fjárþörf bótaflokkanna þar sem meðal annars er litið til þróunar þessara útgjalda á yfirstandandi ári auk hagrænna breytinga, s.s. fjölgunar bótaþega.

Þetta endurmat er nokkuð mismunandi eftir bótaflokkum og getur ýmist verið til hækkunar eða lækkunar. Ekki er gert ráð fyrir því að endurmat útgjalda á yfirstandandi ári leiði til útgjaldabreytinga fyrir fjárlagaliðinn í heild sinni fyrir árið 2016.

Á hinn bóginn hefur þó verið tekið tillit til innbyrðis breytinga í einstökum bótaflokkum en breytingarnar í heild sinni, að meðtaldri fjölgun bótaþega milli ára.

Útgjöldin aukast mest vegna umönnunargreiðslna, endurhæfingarlífeyris, heimilisuppbótar og sérstakrar uppbótar lífeyrisþega um samtals 425 milljónir króna að frátöldum launa- og verðlagsbótum. 

Á móti lækkar fjárveiting vegna mæðra- og feðralauna, frekari uppbóta og bifreiðakostnaðar um samtals 150 milljónir króna að frátöldum launa- og verðlagsbótum.

mbl.is