HÍ fær milljarð til viðbótar

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er lagt til að framlag til skólans hækki um 309,8 milljónir króna að frátöldum launa- og verðlagshækkunum sem nema 709,1 milljónum króna því til viðbótar.

Í fyrsta lagi er lagt til að framlag til skólans hækki um 249,1 milljón króna vegna hækkunar á einingarverði á reikniflokkum náms. Breytingarnar eru hluti af áformum um að styrkja rekstrargrunn skólans með því að hækka framlag með hverjum nemanda.

Í öðru lagi er lagt til að niður falli 200 milljóna tímabundin fjárheimild sem veitt var til tveggja ára til að ráðstafa tekjum frá Happdrætti Háskóla Íslands til byggingaframkvæmda og viðhaldsverkefna.

Þess í stað er lagt til í þriðja lagi, að veitt verði tímabundin fjárheimild til eins árs, 250 milljónir króna., til að ráðstafa tekjum frá Happdrættinu til framkvæmda við byggingu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur auk annarra viðhaldsverkefna og framkvæmda.

Í fjórða lagi er lagt til að 20 milljón króna tímabundin fjárheimild vegna tækjakaupa fyrir Jarðvísindastofnun falli niður.

Í fimmta lagi er áætlað að bæði ríkistekjur af skrásetningargjaldi og útgjöld sem þeim er ætlað að standa undir hækki um 35,6 milljónir króna vegna 3.900 fleiri reiknaðra ársnemenda en lagðir eru til grundvallar kennsluframlagi. Breytingin hefur ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs.

Í sjötta og síðasta lagi er lagt til að framlag til skólans lækki um 4,9 milljónir króna í samræmi við niðurstöðu útreikninga sem byggjast á fjölda ársnemenda og brautskráninga

Háskóli Íslands er langstærstur íslenskra háskóla með 63% af heildarfjölda ársnemenda á meðan að fjórir minnstu skólarnir eru með um 9% fjöldans.

mbl.is