Ríkið styrki ekki trúfélög

Ungir sjálfstæðismenn (SUS) leggjast gegn því að framlög ríkisins til kirkjumála verði aukin.

Fram kemur í tilkynningu frá SUS, að í fjárlagafrumvarpi ársins 2016 sé gert ráð fyrir að framlög til málaflokksins hækki um tæpar 410 milljónir króna.

„Framlög ríkisins til Þjóðkirkjunnar hækka um rúmar 70 milljónir króna eða 4,8% á milli ára. Það á ekki að vera eitt af hlutverkum hins opinbera að standa í rekstri trúfélaga. Óeðlilegt er að ríkisvaldið geri einu trúfélagi hærra undir höfði en öðrum og mikilvægt er að gætt sé jafnræðis svo öll trú- og lífsskoðunarfélög sitji við sama borð. Er því brýnt að aðskilja ríki og kirkju sem allra fyrst. Þeir einstaklingar sem kjósa að tilheyra trú-eða lífsskoðunarfélagi komi að því að reka og fjármagna viðkomandi félag,“ segir í tilkynningu SUS.

Fagna lækkun tekjuskatts á einstaklinga

Þá fagna Ungir sjálfstæðismenn fyrirætlun fjármálaráðherra að lækka tekjuskatt á einstaklinga og því að stefnt sé á fækkun skattþrepa úr þremur í tvö. „Ungir sjálfstæðismenn vilja þó brýna fyrir fjármálaráðherra að stefna ótrauður á að fækka skattþrepum niður í eitt sem allra fyrst. Skattkerfið á að vera einfalt og vinnuhvetjandi. Stighækkandi tekjuskattur er vinnuletjandi og flókinn,“ segir ennfremur.

„Einnig er vert að fagna því að stefnt er að afnámi tolla á fatnað og skó um áramót. Afnám tolla er mikið hagsmunamál sem er til þess fallið að lækka vöruverð, íslenskum heimilum til góða og gera íslenska verslun samkeppnishæfari við erlenda samkeppni. Fjármálaráðherra er hvattur til þess að afnema einnig tolla af tilteknum matvörum við fyrsta tækifæri.

Ungir sjálfstæðismenn fagna því jafnframt að stefnt sé á að reka hið opinbera með rúmlega 15 milljarða króna afgangi. Íslenska ríkið er enn gríðarlega skuldsett og mikilvægt er að grynnka á þeim eins hratt og mögulegt er,“ segir SUS.

mbl.is