Í framhaldi af símafundi Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra, og Frederica Mogherini, utanríkismálastjóra ESB, funduðu embættismenn með fulltrúum utanríkisþjónustu Evrópusambandsins í dag um þá stöðu sem upp er komin á Íslandi í kjölfar hefndaraðgerða Rússa
Líkt og mbl hefur áður greint frá stóð til að fara yfir stöðuna sem upp er komin eftir að Rússar settu innflutningsbann á sjávarafurðir frá Íslandi og m.a. voru tollaívilnanir til umræðu á fundinum.
Í svari Utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn mbl segir að staða mála hafi verið útlistuð á fundinum og að skipst hafi verið á upplýsingum.
Sammælst var um að sérfræðingar frá Íslandi og sjávarútvegs- og utanríkisskrifstofum Evrópusambandsins myndu í kjölfarið funda eins fljótt og kostur væri.