Samanlögð áhrif af lækkun tekjuskatts einstaklinga, afnámi tolla og breytingu á fjármagnstekjuskatti, sem boðuð eru í fjárlagafrumvarpi næsta árs verða um 17 milljarðar kr. þegar síðari áfangi breytinganna kemur til framkvæmda á árinu 2017.
Þetta svarar til 1,4% aukningar á ráðstöfunartekjum heimilanna að því er fram kemur í greinargerð frumvarps um forsendur fjárlagafrumvarpsins, sem dreift hefur verið á Alþingi.
Margar þessara skattkerfisbreytinga sem boðaðar eru verða innleiddar á tveimur árum. Fjölmargar skatta og tollabreytingar eru lagðar til og að mati fjármálaráðuneytisins mun afkoma ríkissjóðs versna um 8,1 milljarð kr. á næsta ári frá því sem annars hefði orðið, verði þær lögfestar á Alþingi.