Glutri ekki niður ávinningnum

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra mælir fyrir fjárlagafrumvarpinu.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra mælir fyrir fjárlagafrumvarpinu. mbl.is/Eggert

Fjárlög næsta árs verða afgreidd með rúmlega 15 milljarða króna afgangi sem verður í þriðja sinn sem afgangur verður af fjárlögum. Ennfremur stefnir í að meiri afgangur verði af fjárlögum yfirstandandi árs en gert hafi verið ráð fyrir í fjárlögum þessa árs. Munar þar mest um hagstæðari einskiptistekjufærslur. Einkum aðgreiðslur frá fjármálafyrirtækjum ein einnig stefnir í minni halla á vaxtajöfnuði. Þannig er gert ráð fyrir að afgangurinn á þessu ári verði rúmur 21 milljarður í stað 3,5 milljarða eins fjárlög 2015 hafi kveðið á um.

Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar á Alþingi í morgun þegar hann mælti fyrir fjárlagafrumvarpi næsta árs. Með frumvarpinu yrði skuldir ríkissjóðs lækka og tekjuskattur einstaklinga sömuleiðis. Tollar yrðu ennfremur afnumdir í áföngum. Framlög til húsnæðismála aukin, elli- og örorkulífeyrir hækkaður verulega, velferðarkerfið styrkt frekar og framlög til nýsköpunar og þróunar aukin. Vatnaskil væru hvað fjármál ríkisins varðaði. Gott færi væri nú til þess að umbylta skuldastöðu ríkissjóðs og færa hana til betri vegar. Tækist vel til við afnám fjármagnshafta samfara batnandi afkomu ríkissjóðs og lækkandi vaxtabyrði væru horfur íslenskra efnahagsmála jákvæðar og leiðin til aukinnar vælsældar þjóðarinnar tryggilega vörðuð.

Blikur á lofti vegna launahækkana

„Sex prósent kaupmáttaraukning frá júlí 2014 til júlí 2015 samfara lágri verðbólgu, lækkandi skuldastöðu heimilanna, minnkandi atvinnuleysi og myndarlegum hagvexti sýnir svo ekki verði um villst að verulegur lífskjarabati hefur náðst að undanförnu með stöðugleika í efnahagsmálum,“ sagði Bjarni. Engu að síður væru ýmsar blikur á lofti þar sem verðbólguvæntingar hefðu aukist. Ekki síst vegna mikilla launahækkana í þeim kjarasamningum sem gerðir hefðu verið. Enn ríkti mikil óvissa um það hvaða áhrif þeir samningar ættu eftir að hafa á eftirspurn og þenslu. Þar spilaði einnig inn í að töluverður órói hefði verið á heimsmörkuðum síðustu vikur og ekki ljóst hver framvindan yrði í þeim efnum.

Taka yrði höndum saman og tryggja að sá ávinningur sem náðst hefði héldist og yrði ekki glutrað niður. Bjarni nefndi vaxtagjöld ríkissjóðs sérstaklega í ræðunni en þau væru þriðji stærsti útgjaldaliður hans. Heildarskuldir ríkisins hefðu verið nær 1.500 milljarðar króna um síðustu áramót. Að óbreyttri skuldastöðu þyrfti að greiða um 70 milljarða króna árlega í vexti. Þeim fjármunum væri betur varið til þess að byggja upp innviði samfélagsins, styrkja velferðarþjónustuna og lækka skatta og aðrar álögur á einstaklinga og fyrirtæki. Við þetta bættust ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs upp á um 435 milljarða króna. Yrði ekkert að gert í þeim efnum féllu 25 milljarðar á ári á ríkissjóð  vegna þeirra eftir 15 ár.

Framunda gott jafnvægi í ríkisrekstrinum

Þarna væri á ferðinni verulegur vandi. Hins vegar gæfu jákvæðar horfur í ríkisfjármálum vonir um að hægt yrði að taka á málinu og leysa það að stóru leyti, fresta því inn í lengri framtíð að þessar skuldbindingar lentu á ríkissjóði eða koma alfarið í veg fyrir það. Skref í þá átt væri stigið í forsendum fjárlagafrumvarpsins. Bjarni sagði að lokum að fjárlagafrumvarpið styddi við stöðugan og sjálfbæran ríkisrekstur og ábyrgra fjármálastjórn. Það ásamt hagstæðum ytri skilyrðum í hagkerfinu gerði það að verkum að framundan væri gott jafnvægi í ríkisfjármálunum og tímabil niðurgreiðslan á skuldum ríkissjóðs að raunvirði. Það væri grundvallaratriði í langtímaáætlun ríkisfjármálanna.

„Þannig er lagður góður grunnur að ábyrgri stjórn efnahagsmála á Íslandi sem skilar íslensku samfélagi miklum ábata til framtíðar litið. Batnandi afkoma, lægri skuldir, léttari vaxtabyrði. Þetta skapar ríkissjóði tækifæri til að takast á við þessi mörgu aðkallandi þjóðfélagsverkefni sem við ræðum reglulega hér í þingsal.“

mbl.is