Rætur batans á síðasta kjörtímabili

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Styrmir Kári

Skuldasöfnun ríkissjóðs vegna bankahrunsins var stöðvuð 2013 í samræmi við áætlanir ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Þetta sagði Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag í umræðum um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar.

Þannig hefði staða ríkissjóðs farið stöðugt batnandi á síðasta kjörtímabili, kaupmáttur aukist, hagvöxtur verið umtalsverður, atvinnuleysi minnkað jafnt og þétt og vextir og verðbólga lækkað. Sú þróun hafi sem betur fer haldið áfram á þessu kjörtímabili. Gagnrýndi hún Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra harðlega fyrir að hafa í stefnuræðu sinni fyrr í vikunni látið eins og allt gott í núverandi efnahagsumhverfi væri núverandi ríkisstjórn að þakka.

Oddný sagði að þar með gerði Sigmundur ekki aðeins lítið úr því sem stjórnvöld hafi gert á síðasta kjörtímabili heldur einnig fólkinu í landinu sem hafi lagt grunninn að núverandi efnahagsbata sem erfiði sínu í kjölfar bankahrunsins. Spurði hún hvort forsætisráðherra héldi virkilega að hann gæti blekkt þjóðina með slíkum blekkingum. Hins vegar hefði áætlun síðustu ríkisstjórnar gert ráð fyrir mun meiri afgangi af ríkisrekstrinum á næsta ári en fjárlagafrumvarpið nú gerði ráð fyrir.

Gagnrýndi hún ríkisstjórnina fyrir að hafa fært mikið fjármagn úr sameiginlegum sjóðum til efnamesta fólks landsins og fyrirtækjanna líkt og búðast hefði mátt við. Hryggilegt væri að aðeins sumir fengju að njóta efnahagsbatans á meðan stórir hópar fengju ekki notið bættrar stöðu. Einkum þeir sem minnst hefðu á milli handanna. Samfylkingin hefði dreift efnahagsbatanum í samræmi við hugsjónir jafnaðarstefnunnar.

mbl.is