Samstaða um að selja Landsbankann

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnarflokkarnir eru samstíga um að selja hluta af eign ríkisins í Landsbankanum. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í umræðum á Alþingi í morgun um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, spurði ráðherrann hvort hann nyti stuðnings Framsóknarflokksins í þeim efnum.

Bjarni sagði að fjárlagafrumvarpið væri frumvarp ríkisstjórnarinnar og þar með stæðu báðir ríkisstjórnarflokkanir að því. Þar væri gert ráð fyrir því að hluti af eign ríkisins í Landsbankanum yrði seldur. Benti hann ennfremur á að fyrri ríkisstjórn hafi upphaflega markað þá stefnu að selja hlut ríkisins í bankanum. Sjálfur væri hann þeirrar skoðunar að ríkið ætti að eiga áfram 40% í Landabankanum en selja ætti það sem út af stæði.

Þannig mætti greiða niður skuldir ríkisins og tryggja dreift eignarhald að Landsbankanum og um leið tryggja að ríkið yrði áfram aðaleigandi bankans.

mbl.is