„Megum engan mann missa“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Forstjóri Landspítalans segir að fjárlögum næsta árs sé ekki gert ráð fyrir að Landspítali mæti þeirri auknu þjónustuþörf sem sé væntanleg á næsta ári í ljósi mannfjöldaþróunar og fjármagn til bráðnauðsynlegra viðhaldsframkvæmda sé fjórðungur af áætlaðri þörf. Þá sé áhyggjuefni að enginn þeirra lífeindafræðinga sem sögðu upp störfum hafi dregið sínar uppsagnir til baka. 

Þetta kemur fram í pistli sem Páll Matthíasson birtir á heimasíðu sjúkrahússins, en þar er fjárlagafrumvarpið til umfjöllunar. 

Páll segir, að í rekstrargrunn spítalans hafi verið bætt ríflega 300 milljónum vegna nýrra verkefna, m.a. jáeindaskanna en samhliða séu felldar niður rúmar 400 milljóni í samræmi við tækjakaupaáætlun stjórnvalda.

Þá fylgi stjórnvöld vel eftir undirritun samnings um fullnaðarhönnun meðferðarkjarna við Hringbraut í síðustu viku og það sé ánægjulegt að sjá fjármagn til verkefnisins sem og byggingu sjúklingahótels á sama reit.

Sameiginleg úrlausnarefni

„Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að Landspítali mæti þeirri auknu þjónustuþörf sem er væntanleg á næsta ári í ljósi mannfjöldaþróunar og fjármagn til bráðnauðsynlegra viðhaldsframkvæmda er fjórðungur af áætlaðri þörf. Hér eru sameiginleg úrlausnarefni fyrir okkur og stjórnvöld enda ábyrgðin á sómasamlegum rekstri þjóðarsjúkrahússins okkar allra. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en árangursríku samtali um þessa þætti og fleiri á meðan frumvarpið er til umfjöllunar á Alþingi,“ segir forstjórinn.

Þá bendir Páll á, að nú hafi 143 hjúkrunarfræðingar af þeim ríflega 250 sem sögðu upp störfum í sumar dregið uppsagnir sínar til baka.

„Þetta er mjög ánægjulegt og ég vona að fleiri komist að sömu niðurstöðu og haldi áfram störfum hér á spítalanum. Á sama tíma er áhyggjuefni að enginn þeirra 26 lífeindafræðinga sem sögðu upp störfum hafa dregið sínar uppsagnir til baka. Verkefni okkar er að vinna með þær bjargir sem við höfum og bæta vinnuaðstæður og umhverfi til þess að allt þetta frábæra fólk sjái sér fært að starfa hér áfram. Framundan er krefjandi vetur með fjölmörgum verkefnum og við megum engan mann missa,“ segir Páll.

mbl.is