Bandarísk kona kærir nauðgun á Indlandi

Frá Dharamsala
Frá Dharamsala AFP

Bandarísk ferðakona hefur kært nauðgun í fjallabænum Dharamsala í norðurhluta Indlands. Að sögn lögreglu var konan, sem er 46 ára gömul,  á fjölmennum markaði í bænum, sem er heimabær Dalai Lama og fjölmargra Tíbeta, á þriðjudagskvöldið þegar tveir menn réðust á hana.

Konan, sem hefur verið á ferðalagi á Indlandi í um það bil mánuð, var ein á ferð í Dharamsala. Hún segist hafa misst meðvitund eftir að mennirnir tveir, sem hún bar ekki kennsl á, réðust á hana. Þegar hún komst til meðvitundar á ný kom í ljós að henni hafði verið nauðgað og kærði hún ofbeldið til lögreglu daginn eftir, að sögn lögreglu í Kangra héraði. Málið er í rannsókn en enn hefur enginn verið handtekinn vegna málsins.

Beðið er niðurstöðu læknisrannsóknar og eins er vitna leitað. Verið er að fara yfir myndir úr öryggismyndavélum á svæðinu er margt fólk var á markaðnum þegar árásin var gerð. 

mbl.is