Karen Anna Alexandersdóttir. 11 mánaða, elskar hundinn Lúðvík sem oftast er kallaður Lúlli. Væntumþykjan er gagnkvæm og leyfir Lúlli henni að aka sér um á litlum bíl og nýtur rólegur ferðarinnar.
Karen er dóttir Tinnu Ýrar Vestmann Ólafsdóttur og Alexanders Arons Davorssonar. Tinna Ýr náði skemmtilegu myndskeiði sem sýnir svo ekki verður um villst að samband Lúlla og Karenar er einstaklega náið. Myndbandinu deildi Tinna Ýr á Facebook og má sjá það hér að neðan.
Tinna Ýr segir dóttur sína mikinn orkubolta sem dýrki hunda. Sérstaklega er hún hrifin af hundum Tönju, systur Tinnu Ýrar, en þeir eru báðir af pug-kyni.
„Hann Lúlli er alveg yndislegur hundur með mikinn karakter og maður getur hlegið endalaust að honum,“ segir Tinna Ýr í samtali við mbl.is. Tíkin Kara sem einnig er í eigu systur Tinnu Ýrar, er einnig í miklu uppáhaldi hjá Karen.
mbl.is hvetur lesendur til að senda inn ábendingar um skemmtileg myndskeið af samskiptum barna og dýra á netfangið netfrett@mbl.is.