ESA aðhefst ekki frekar vegna stöðugleikaskatts

Höfuðstöðvar ESA í Brussels.
Höfuðstöðvar ESA í Brussels.

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hyggst ekki taka til frekari skoðunar ráðstafanir íslenskra stjórnvalda í tengslum við aðgerðaáætlun um losun fjármagnshafta, sem varða frádrátt frá stöðugleikaskatti og framlag í samræmi við stöðugleikaskilyrði. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar segir að niðurstaðan sé mikilvægur áfangi í áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta sem kynnt var í júní á þessu ári. 

Íslensk stjórnvöld upplýstu stofnunina fyrr á þessu ári um heimildir til frádráttar frá stöðugleikaskatti og um áætlanir um viðtöku stöðugleikaframlags. Þeim sjónarmiðum var jafnframt velt upp hvort í slíkum ráðstöfunum, sem tengdust fjármálagerningum starfandi banka og sparisjóða, gæti falist óbein ríkisaðstoð í skilningi 1. mgr. 61. gr. EES- samningsins.

Um leið voru færð rök fyrir því að þar sem umræddar heimildir væru hluti af verndarráðstöfunum vegna röskunar á íslenskum fjármagnsmarkaði og erfiðleika tengdum greiðslujöfnuði, féllu þær ekki undir eftirlit ESA, með vísan til 2. og 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins. Ráðstafanir sem falla undir þessi ákvæði eru tilkynntar til sameiginlegu EES-nefndarinnar samkvæmt 45. gr. EES-samningsins.

Málinu er nú lokið með ákvörðun ESA um að aðhafast ekki frekar vegna þess, enda falli ráðstafanir í tengslum við áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta, ekki undir valdsvið stofnunarinnar. 

mbl.is