Hægt að eiga kökuna og borða hana

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég hef nú hvergi lagt það til að ríkið drægi sig alveg út sem eigandi að Landsbankanum. Ég hef hins vegar haldið áfram þeirri stefnu sem mótuð var á síðasta kjörtímabili að mæla fyrir því að við héldum opinni heimild fyrir sölu á hlut ríkisins í Landsbankanum, allt að 30%, og það er að finna slíka heimild í fjárlagafrumvarpinu, tillögu um það.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Helga Hjörvar, þingflokksformanni Samfylkingarinnar. Helgi spurði Bjarna hvort ráðherranum væri alvara með því að tímabært væri að einkavæða Landsbankann aftur. Spurði hann að því hvort skattgreiðendur græddu ekki meira á því að eiga bankann en ef hann hefði verið seldur og hvort ekki hefðu verið gerðar of litlar breytingar á regluverkinu um fjármálafyrirtæki.

„Er ekki alger forsenda að tryggja það að ógæfan endurtaki sig ekki með því að örfáir aðilar í viðskiptalífinu nái að leggja undir sig stóra eignarhluti í fjármálafyrirtækjum og er ekki fjármálamarkaðurinn ennþá í þeirri endurskoðun og þarf hann ekki enn á þeirri uppstokkun og samkeppni að halda að ríkið eigi þvert á móti að grípa til aðgerða á þeim markaði en ekki draga sig í hlé,“ sagði hann ennfremur.

Bjarni sagðist sjá fyrir sér að ríkið yrði aðaleigandi Landsbankans um langa framtíð. „Ég tel á sama tíma að það geti verið mikill ávinningur af því fyrir alla landsmenn að ríkið dragi úr eignarhlut sínum í Landsbankanum niður í um það bil, segjum, 40% og nýti söluandvirðið til þess að greiða upp skuldir og létta á mjög miklum vaxtakostnaði sem ríkið þarf að standa undir á hverju ári.“ Það hefði enda alltaf verið hugmyndin frá því að bankarnir féllu.

Þannig væri hægt í raun að eiga bæði kökuna og borða hana í þeim skilningi að kakan yrði ekki seld að öllu leyti. Ríkið yrði þá áfram ráðandi eigandi Landsbankans. Benti hann ennfremur á að Samfylkingin hefði staðið að tillögugerð á síðasta kjörtímabili þegar hún var í ríkisstjórn um að Landsbankinn skyldi seldur og hafi ennfremur verið búin að leggja línurnar um það með hvaða hætti söluhagnaðinum yrði ráðstafað. En það væri eitt einkenni Samfylkingarinnar að skipta reglulega um skoðun.

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is