Yfirvöld í Pakistan hafa frestað því að hengja fatlaðan mann sem taka átti af lífi í dag. Aftökunni var frestað að beiðni mannréttindasamtaka.
Abdul Basit, 43 ára, var dæmdur fyrir morð árið 2009 en hann smitaðist af berklum í fangelsi árið 2010 og lamaðist í kjölfarið fyrir neðan mitti.
Hengja átti Basit í dag en dómstóll frestaði aftökunni eftir að lögmannsstofan Justice Project Pakistan, sem vinnur við mannréttindamál, gagnrýndi hvernig staðið yrði að aftöku á manni í hjólastól. Samkvæmt lögmannsstofunni gera reglur ráð fyrir því að fangar standi á gálganum og að lengd reipisins miðist við hæð hans í standandi stöðu. Telur stofan að það sé ekki hægt að hengja mann sem ekki getur staðið í fæturna.
Móðir Basits, Nusrat Perveen, staðfestir við AFP fréttastofuna að aftökunni hafi verið frestað. Hún segir að fangelsisyfirvöld hafi hringt í hana og tjáð henni að ástæðan væri veikindi hans.
Frá því í lok desember hafa yfir 200 fangar verið teknir af lífi í Pakistan en þá hafði verið gert hlé á aftökum í sex ár. Eftir að talibanar gerðu árás á grunnskóla í landinu sem kostaði yfir 150 manns lífið, mestmegnis börn, þá ákvað forseti landsins að hefja aftökur á nýjan leik.
Amnesty International telja að yfir átta þúsund fangar bíði á dauðadeild í Pakistan.