Hætta sölu á Volkswagen í Sviss

AFP

Yfirvöld í Sviss sögðu í dag að þau myndu banna sölu á nýjum bílum Volkswagen sem gætu haft búnaðinn umdeilda sem svindlar á mengunarprófum. Allt að 180.000 bílar sem Volkswagen, Audi, Seat og Skoda hafa selt í landinu gætu verið með umræddan búnað.

Bílar með vélar af gerðunum 1,2TDI, 1,6TDI og 2,0TDI gætu verið búnar þessum búnaði, hugbúnaði sem gerir þeim kleift að komast betur í gegnum mengunarpróf en tilefni er til.

Tilkynningin yfirvalda í Sviss kemur í kjölfar þess að Volkswagen tilkynnti að fyrirtækið myndi ráða Matthias Müller, forstjóra Porsche, forstjóra þess til að stýra því út úr þeim ógöngum sem það er komið í. Umfang hneykslisins kom fyrst almennilega í ljós þegar Volkswagen viðurkenndi að 11 milljón bílar þess væru búnir hugbúnaði til að svindla á mengunarprófum.

mbl.is