Hengdur eftir 16 ár á dauðadeild

Ansar Iqbal var hengdur í morgun
Ansar Iqbal var hengdur í morgun Amnesty International

Pakistönsk yfirvöld tóku fanga af lífi í morgun sem var  fimmtán ára þegar þegar hann var handtekinn.

Ansar Iqbal var handtekinn árið 1994 sakaður um morð. Hann neitaði sök en var dæmdur til dauða árið 1996 þrátt fyrir að halda því fram að hann væri aðeins fimmtán ára gamall er hann var handtekinn.

Samkvæmt upplýsingum frá bresku mannúðarsamtökunum Reprevie bentu öll gögn til þess að hann færi rétt með aldur sinn en yfirvöld neituðu að taka orð hans trúanleg og sögðu að hann hafi verið um tvítugt. Iqbal var hengdur í morgun.

Iqbal átti ekki fæðingarvottorð, ekkert frekar en margir aðrir íbúar Pakistans en tveir af hverjum þremur eiga ekki slíkt vottorð.

Við réttarhöldin yfir Iqbal voru lögð fram gögn frá skólum og fjölskyldumeðlimum en ekki var tekið mark á þeim.

Þegar lögmaður hans áfrýjaði til hæstaréttar fyrr á þessu ári lagði Iqbal fram fæðingarvottorð sem var gefið út í ár. Samkvæmt því fæddist hann 25. desember 1978 sem staðfestir að hann var á barnsaldri þegar hann var handtekinn.

Alls hafa 250 fangar verið teknir af lífi í Pakistan frá því í desember en alls eru rúmlega átta þúsund fangar á dauðadeildum landsins.

Ansar Iqbal og vinur hans voru handteknir fyrir sextán árum, sakaðir um að hafa myrt nágranna. Fjölskylda fórnarlambsins segir að ástæða morðsins hafi verið rifrildi á krikketleik. Iqbal segir að lögregla hafi sakað hann um morðið vegna þess að hann var fátækur og gat ekki varið sig. Lögreglan hafi komið tveimur byssum fyrir á heimili hans. Samkvæmt lögum í Pakistan má ekki dæma ungmenni til dauða.

Reprieve

mbl.is